Stærsta spillingamál Spánar um árabil

Kaupsýslumaðurinn Francisco Correa (til hægri) á yfir höfði sér allt …
Kaupsýslumaðurinn Francisco Correa (til hægri) á yfir höfði sér allt að 125 ára fangelsisdóm verði hann fundinn sekur. AFP

37 manns, þar á meðal forsvarsmenn í spænska íhaldsflokkinum Partido Popular (PP)  eru nú fyrir dómi í Madrid , sakaðir um þátttöku í viðamiklu spillinganeti. Þrír fyrrverandi gjaldkerar flokksins eru í hópi hinna ákærðu, en málið er stærsta spillingamál sem farið hefur fyrir spænska dómstóla í langan tíma.

Kaupsýslumaðurinn Francisco Correa er sakaður um að hafa verið forsprakki spillingarnetsins og að hafa greitt mútugreiðslur til að fyrirtæki hans fengju samninga við hið opinbera víða um Spán. 

Correa á  yfir höfði sér allt að 125 ára fangelsisdóm verði hann fundinn sekur í málinu. Hann hefur sætt gæsluvarðhaldi undanfarin í þrjú ár og gekk lengi vel undir gælunafnið „Don Vito“ í höfuðið á aðalsöguhetju kvikmyndarinnar Guðfaðirinn.

Gurtel málið svo nefnda hefur hlotið mikið umtal á Spáni undanfarin ár, eða allt frá því að opinber starfsmaður í Madrid kom upp um spillinguna og rannsóknardómarinn Baltazar Garzon tók málið til frekari skoðunar.

Ana Garrido,  sem kom upp um spillingarnetið, var opinber starfsmaður í Madrid, þegar hún uppgötvaði fyrir tæpum áratug að viss fyrirtæki nutu fyrirgreiðslna af hálfu íhaldsflokksins í þeim borgarhluta Madrid þar sem hún starfaði, án þess að hefðubundinna útboðsreglna væri gætt.  Garrido uppgötvaði síðan, er hún fór að skoða málið betur, að það náði langt út fyrir hennar borgarhluta.

Sönnunargögnin Garrido enduðu síðan í höndum dómarans Garzon, en sjálf átti hún ekki sjö dagana sæla eftir að upp komst um málið. „Uppljóstrarar njóta engrar vendnar á Spáni. Það er ekki bara það að við njótum ekki verndar, heldur getum við líka sætt ofsóknum af hendi þeirra sem við sökum um valdníðslu,“ hefur fréttavefur BBC eftir Garrido.

Meðal þeirra sem ákærðir eru í málinu er Luis Barcenas sem lengi vel gegndi embætti gjaldkera flokksins. Hann hefur þegar játað að hafa komið sérstökum sjóði fyrir í Sviss sem sá um að greiðslur bærust til ráðamanna flokksins.

Heilbrigðisráðherrann Ana Mato sagði starfi sínu lausu eftir að upp komst um tengsl eiginmanns hennar, Jesus Sepulveda, við spillinganetið. Hann er meðal þeirra sem kærðir hafa verið, en Mato sjálf hefur ekki verið kærð.

Málið þykir allt hið vandræðalegasta fyrir forsætisráðherra Spánar, Mariano Rajoy, þó nafn hans hafi ekki borði á góma í rannsóknini.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert