Hali óx út úr baki unglings

Halinn reyndist vera 20 cm langur.
Halinn reyndist vera 20 cm langur. Skjáskot/BBC

Búið er að fjarlægja með skurðaðgerð 20 cm langan hala sem óx út úr baki unglings á Indlandi. Halinn tók að vaxa neðst við mænu hans fljótlega eftir fjórtán ára afmælisdaginn. Pilturinn er nú átján ára. 

Í frétt BBC um málið segir að fjölskylda hans hafi haldið halanum leyndum því þau óttuðust að drengnum yrði strítt. Þau fóru þó loks til læknis eftir að ljóst var að halinn hélt áfram að vaxa og bein var farið að myndast inni í honum.

Samkvæmt upplýsingum BBC er þetta lengsti hali sem vaxið hefur á nútímamanni svo vitað sé. Mjög sjaldgæft er að hali vaxi niður úr mænu fólks.

„Þetta varð vandamál þegar halinn fór að vaxa út úr líkamanum,“ segir móðir piltsins við BBC. „Hann þurfti að lyfta halanum til að komast í föt,“ útskýrir hún. Móðirin segir þetta hafa verið sársaukafullt fyrir son sinn og því hafi þau ákveðið að fara á sjúkrahúsið.

Læknar telja mögulegt að halinn hafi tekið að myndast strax í móðurkviði vegna frávika í vexti mænunnar. Hann hafi hins vegar farið að vaxa út úr líkamanum með árunum.

Læknir segir í samtali við BBC að nauðsynlegt hafi verið að fjarlægja halann. Hann hafi bæði haft áhrif á drenginn líkamlega og andlega. 

Aðgerðin var ekki flókin en þó vandasöm því halinn var tengdur að hluta við mænuna. Pilturinn er enn á sjúkrahúsi en fær fljótlega að fara til síns heima.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert