Hvassar kappræður

Donald Trump gerði lítið úr myndbandsupptöku þar sem hann heyrðist segja svívirðilega hluti um konur í öðrum sjónvarpskappræðum forsetaframbjóðendanna í Bandaríkjunum í nótt. Tónn kappræðnanna var enn hvassari en þeirra fyrstu og hélt Trump sérstaklega ekki aftur af sér.

Eins og við mátti búast var ellefu ára gömul myndbandsupptaka þar sem heyra mátti Trump tala um hvernig hann hefði reynt við gifta konu og hvernig frægðin gerði honum kleift að gera nær hvað sem er við konur ofarlega á baugi í kappræðunum sem fóru fram í Missouri í nótt.

Bein lýsing Mbl.is á kappræðunum í nótt

Anderson Cooper, annar stjórnandi kappræðnanna, spurði Trump beint út hvort að hann hefði gert þá hluti við konur sem hann heyrist lýsa í myndbandinu. Því neitaði Trump og gerði lítið úr mikilvægi ummæla sinna þó að hann væri ekki stoltur af þeim.

„Enginn ber eins mikla virðingu fyrir konum og ég,“ sagði Trump sem reyndi að þræta fyrir að hafa sagt suma þá hluti sem hann heyrist segja á upptökunni. Það sem hann sagði hafi allt verið „búningsklefatal“. Reyndi hann í staðinn að snúa umræðunni upp í tal um Ríki íslams sem væri mikilvægara málefni.

Hillary Clinton hamraði andstæðing sinn fyrir ummælin en benti á að það væru ekki bara konur sem hann hefði svívirt án þess að biðjast afsökunar. Hann hafi leikið sama leik með innflytjendur, blökkumenn, Mexíkóa, múslima, fatlaða, stríðsfanga og fleiri. Maðurinn væri hreinlega ekki hæfur til að gegna embætti forseta Bandaríkjanna.

Donald Trump kallaði Clinton meðal annars svikara og hörmung í …
Donald Trump kallaði Clinton meðal annars svikara og hörmung í kappræðunum. AFP

Hótaði Clinton rannsókn

Fyrri helmingur kappræðnanna var sérstaklega hvass og fór Trump oft og tíðum mikinn. Kallaði hann Clinton „lygara“ og „hörmung“. Hann dró fram ásakanir fjölda kvenna á hendur Bill Clinton, eiginmanns Hillary, en fjórar þeirra voru í salnum. Enginn í sögu bandarískra stjórnvalda hafi misnotað konur eins og Bill Clinton. Þá sakaði Trump Hillary um að hafa ráðist á konurnar sem ásökuðu eiginmann hennar.

Greip Trump ítrekað fram í fyrir Clinton með kaldhæðnum athugasemdum sem jöðruðu á köflum við að vera barnalegar. Cooper bað Trump eitt sinn um að hætta að gjamma fram í því Clinton hafi ekki gripið fram í fyrir honum. Það sagðist Clinton svo sannarlega ekki hafa gert.

„Vegna þess að þú hefur ekkert að segja,“ skaut Trump þá inn í mál hennar.

Þá hóf Trump stórsókn vegna tölvupóstmála Clinton þegar hún var utanríkisráðherra. Sérstaka athygli vakti þegar hann hótaði því að skipa sérstakan saksóknara til að rannsaka það að hún hafi notað eigin tölvupóstþjón og eytt út völdum póstum áður en málið var rannsakað.

„Þú værir í fangelsi,“ sagði hann.

Persónulegar árásir einkenndu aðrar sjónvarpskappræður forsetaframbjóðendanna tveggja.
Persónulegar árásir einkenndu aðrar sjónvarpskappræður forsetaframbjóðendanna tveggja. AFP

Múslimabann orðið að „stífri bakgrunnsskoðun“

Bann við komum múslima til Bandaríkjanna sem Trump boðaði í kosningabaráttunni barst einnig til tals. Nú sagði Trump að bannið væri orðið að stífri bakgrunnsskoðun á þeim sem kæmu til Bandaríkjanna. Kvartaði hann undan því að fjöldi fólks streymdi til landsins án þess að stjórnvöld hefðu hugmynd um hvert það væri.

Þegar talið barst að ástandinu í Sýrlandi fór umræðan um víðan völl. Clinton sakaði Rússa um árásarhneigð í Sýrlandi og þeir hefðu engan áhuga á að berjast gegn Ríki íslams. Hún vildi ekki senda bandaríska hermenn til landsins en lagði til að vopna Kúrda og aðstoða þá og aðrar hersveitir heimamanna í baráttunni gegn Ríki íslams.

Málflutningur Trump um að banna múslima spili upp í hendurnar á hryðjuverkasamtökunum sem noti hann til að safna liði.

„Við erum ekki í stríði við múslima. Það spilar upp í hendurnar á hryðjuverkamönnum að láta eins og við séum það,“ sagði hún.

Sama hvernig stjórnendur kappræðnanna reyndu fékkst Trump ekki til að gefa skýra afstöðu um hvernig hann hygðist ráða bót á ástandinu í Sýrlandi og Aleppo sérstaklega sem hefur orðið illa úti í árásum stjórnarhersins og Rússa undanfarið.

Þess í stað sakaði Trump stjórnvöld og bandaríska herinn um heimsku fyrir að tilkynna um herferðir til að endurheimta borgir eins og Mósúl í Írak nokkrar vikur fram í tímann.

„Hversu heimskt er landið okkar?“ spurði Trump en hinn stjórnandinn, Martha Raddatz benti honum á að herinn hefði ýmsar ástæður til þess eins og sálfræðihernað og að gefa óbreyttum borgurum tækifæri á að flýja.

Þá sagðist Trump ósammála varaforsetaefni sínu Mike Pence um að kannski þyrfti bandaríski herinn að beita valdi til að stöðva ágang Rússa í Sýrlandi.

Viðurkenndi skattahagræði

Svo skammt hefur verið á milli nýrra hneykslismála í kosningabaráttunni að uppljóstranir New York Times um að Trump hafi getað nýtt sér rúmlega 900 milljón dollara tap á spilavítum á 10. áratug síðustu aldar til að koma sér undan alríkistekjuskatti í tvo áratugi hefur nær alveg horfið í skuggann af upptökunni þar sem Trump talaði um að „grípa konur í píkuna“.

Trump gat þó ekki forðast spurningu um skattamál sín í kappræðunum og játaði því að hafa notað tapið til að sleppa við skattgreiðslur.

„Það gera líka allir bakhjarlar hennar,“ sagði Trump um fjárhagslega stuðningsmenn Clinton. Hann vildi þó ekki svara hversu lengi hann nýtti sér tapið til að lækka skattana sína. Endurtók hann fyrri fullyrðingar um að hann muni birta skattaupplýsingar um sig þegar endurskoðun skattayfirvalda lýkur á honum. Áður hefur komið fram frá skattayfirvöldum að endurskoðunin standi á engan hátt í vegi fyrir því að hann geti birt upplýsingarnar.

Þrjár konur sem sökuðu Bill Clinton um kynferðislega áreitni voru …
Þrjár konur sem sökuðu Bill Clinton um kynferðislega áreitni voru í salnum. AFP

„Ég virði það“

Þrátt fyrir allt sem á undan var gengið endaði kvöldið á nokkuð hugljúfum nótum. Áhorfandi í sal bað frambjóðendurna tvo um að nefna einn kost í fari hvors annars sem þeir virtu.

Clinton kaus að lofa Trump ekki beint heldur hrósaði hún börnunum hans sem hún sagði bæði hæf og trú. Það segði sitt um Trump.

„Ég er ekki sammála nær neinu öðru sem hann segir en ég virði þetta,“ sagði Clinton.

Trump sagðist taka orðum Clinton sem hrósi og lofaði sjálfur Hillary beint.

„Hún hættir ekki. Hún gefst ekki upp. Hún er baráttukona. Ég virði það,“ sagði Trump.

Hillary Clinton og Donald Trump glíma á sviðinu í Missouri …
Hillary Clinton og Donald Trump glíma á sviðinu í Missouri í nótt. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert