Stefna yfirvalda að útrýma börnunum?

Frá Eldoret. Stærstu sorphaugar borgarinnar eru kallaðir California Barracks, en …
Frá Eldoret. Stærstu sorphaugar borgarinnar eru kallaðir California Barracks, en þar búa 700 umkomulaus börn. Wikipedia/Daryona

Aðgerðasinnar í Kenía eru þess fullvissir að yfirvöld í Eldoret séu nú markvisst að útrýma götubörnum á svæðinu með því að myrða þau, eða myrða nógu mörg þeirra til að hin sjái sér þann kost vænstan að flýja.

Þetta kemur fram í umfjöllun Guardian, en þar er lýst hryllilegum aðgerðum lögreglu gegn umkomulausum börnum og ungmennum sem hafast við á sorphaugum sem hafa hlotið viðurnefnið „California Barracks.“

Ofsóknir lögreglu gegn íbúum sorphauganna eru ekki nýjar af nálinni en einn sunnudag í maí létust að minnsta kosti 11 börn þegar lögregluyfirvöld á staðnum og sérsveit létu til skarar skríða með skotvopnum og táragasi.

Meðal þeirra sem urðu fyrir barðinu á lögreglu var Samuel Asacha en fyrir áratug, þegar Asacha var 15 ára, reif lögreglumaður annað augað úr honum. Shereen, þá 10 ára, og Shelagh, 14 ára, voru afmyndaðar þegar sami lögreglumaður kastaði sýru framan í þær árið 2014.

„Þeir gáfu enga viðvörun,“ segir Eric Omondi, 20 ára, sem er einn af eldri íbúum California Barracks. „Þetta var fyrirsát. Skyndilega öskruðu börnin, táragasi var hleypt af og lögreglumenn skutu út í loftið.“

Lögreglan myndaði víglínu þannig að börnin voru tilneydd til að hörfa að ánni Sosiani. Hin 17 ára Mary var barin af slíku afli að hún missti ungabarn sitt og Ronny, 16 ára, sem var í hjólastól, grátbað um vægð.

„Ég sagði: Ef þið stoppið ekki drepið þið mig. Þeir svöruðu: Okkur er alveg sama þótt við drepum þig. Ef það að drepa þig hræðir hina í burtu, þá gerum við það.“

Eldoret.
Eldoret. Kort/Google Maps

Margir neyddust til að hoppa út í ána. Lögreglumenn reiddu banahöggið þegar þeir skutu táragasi ofan í vatnið.

Sex létust og næstu daga fundust lík fimm barna á árbakkanum. Elsta fórnarlambið var 16 ára, hið yngsta 9 ára.

Aðgerðasinnar segja aðgerðir yfirvalda kerfisbundnar og að svo virðist sem það gildi einu þótt börnin deyi. Þeir rekja upphafið til febrúar 2015, þegar 30 börn voru bitin af hundum sem var sleppt lausum.

Samtökin Ex-Street segja 14 börn undir lögaldri hafa látist í höndum lögreglu á þessu ári, þar af þrír drengir sem voru skotnir þegar þeir reyndu að flýja undan lögreglu og þrír sem fundust látnir eftir að hafa verið handteknir.

Sumir telja að aðgerðirnar séu þáttur í stríði milli samfélaga Kalenjin, sem eru ráðandi á svæðinu, og Kikuyu.

Formlega hafa þjóðarbrotin samið um frið en Eldoret hefur ekki farið varhluta af átökum milli hópanna og árið 1991 stjaksettu Kalenjin-bardagamenn fóstur Kikuyu-kvenna við veginn að borginni.

Þá var fjöldi Kikuyu-kvenna og barna brenndur inni í kirkju í Eldoret í kjölfar umdeildra forsetakosninga 2007, þegar Mwai Kibaki, Kikuyu-maður, var endurkjörinn.

Ítarlega umfjöllun um málið er að finna hjá Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert