Skandinavía skarar fram úr

Rasisma og fasisma mótmælt í Helsinki 24. september 2016.
Rasisma og fasisma mótmælt í Helsinki 24. september 2016. AFP

Þau tíu svæði innan Evrópusambandsins (ESB) sem skapað hafa íbúum sínum bestu samfélagslegu innviði eru í Finnlandi, Danmörku, Hollandi og Svíþjóð. Hvorki Ísland né Noregur eiga aðild að ESB og eru því ekki með í vísitölunni, Social Progress.

Sístu tíu svæðin eru í Rúmeníu og Búlgaríu. Þetta má sjá á nýjum lista Social Progress Imperative (SPI), stofnunarinnar yfir gæði félagslegrar framþróunar innan ESB, samkvæmt fréttatilkynningu.

„Listinn nær yfir 272 svæði innan 28 aðildarlanda ESB og sýnir að efnahagslegur auður tryggir ekki félagslegar framfarir. Höfuðborgir skapa íbúum þannig ekki alltaf betri félagslegar aðstæður en dreifbýli, og í nýjum aðildarríkjum í ESB eru félagslegar framfarir í sumum tilfellum hraðari en þeim eldri.

SPI-stofnunin bar saman sambærilega reynslu fólks byggða á mati þess á lífstækifærum, grunnþörfum, heilsu og aðgengi að menntun og upplýsingum. Niðurstöðurnar eru bæði „uppörvandi og aðrar en við var að búast,“ að sögn Michael Green, stjórnanda Social Progress Imperative, í fréttatilkynningu.

„Brexit hefur aukið tilvistarkreppu leiðtoga í Evrópu. Með því að leggja fram nákvæma greiningu á áskorunum sem blasa við á svæðum innan ESB, er vísitalan hönnuð sem verkfæri fyrir stefnumótendur til að bæta lífsmöguleika íbúa og þannig skapa sterkara og samhæfðara Evrópusamband,“ segir Green enn fremur í fréttatilkynningunni og bætir við. „Vonin er að þeir sem móta stefnu á öllum stjórnsýslustigum — frá framkvæmdastjórn ESB til staðbundinna sveitarfélaga — geti notað niðurstöðurnar sem verkfæri við frammistöðumat á framkvæmdum, og þannig hjálpað til við stýringu og bætingu á skilvirkni og árangri opinberra fjárfestinga.“

Social Progress Imperative-stofnuninni hefur aðsetur í Washington og London og er hugmyndafræðin að baki mælikvarðanum sem listinn byggir á að setja á oddinn það sem skiptir tilveru fólk mestu máli, þar á meðal eru lífslíkur, aðgangur að heilsugæslu, hagkvæmu húsnæði og menntun, og staða jafnréttismála og trúfrelsi.

Stofnunin birti úttekt sína á löndum heimsins í júní og var Ísland í 10. sæti af 133 þjóðum. Norðurlöndin voru öll í hópi tólf efstu þjóða á 2016 listanum. Finnland í efsta sæti listans, Danmörk í því þriðja, Svíþjóð í sjötta og Noregur í sjöunda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert