Wonder Woman í stað framkvæmdastjóra

Það hugnast ekki öllum að Wonder Woman skuli vera fulltrúi …
Það hugnast ekki öllum að Wonder Woman skuli vera fulltrúi herferðar fyrir eflingu kvenna. Þykir þeim að betur hefði farið á því að útnefna konu arftaka Ban.

Sameinuðu þjóðirnar hafa verið gagnrýndar fyrir að velja ofurhetjuna Wonder Woman til að leiða herferð samtakanna til að efla konur og stúlkur. Gagnrýnendur segja valið niðurlægjandi.

Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, mun á föstudag vera viðstaddur athöfn þar sem Wonder Woman verður formlega útnefnd heiðurssendifulltrúi eflingar (e. empowerment) kvenna og stúlkna.

Valið var tilkynnt nokkrum dögum eftir að Antonio Guterres, fyrrverandi forsætisráðherra Portúgal, var útnefndur arftaki Ban. Sú útnefning olli ýmsum kvennasamtökum vonbrigðum, þar sem vonast hafði verið til að fyrir valinu yrði fyrsta konan til að sinna starfi framkvæmdastjóra.

„Þetta er út í hött,“ segir Shazia Rafi, einn leiðtoga She4SG herferðarinnar og fyrrverandi framkvæmdastjóri Parliamentarians for Global Action.

„Táknmynd herferðarinnar fyrir eflingu kvenna er teiknimyndapersóna, á meðan hægt var að velja á milli margra raunverulegra kvenna.“

Rafi, sem hefur ritað Ban bréf og hvatt hann til að sniðganga athöfnina, krefst þess að fallið verði frá ákvörðuninni.

Stephane Dujarric, talsmaður hjá Sameinuðu þjóðunum, segir valið á Wonder Woman hins vegar tilraun til að ná til yngri kvenna. Þá hefur hann hvatt gagnrýnendur til að bíða athafnarinnar á föstudag, áður en þeir draga ályktanir um markmið herðferðarinnar.

Herferðinni, sem ber yfirskriftina All the Wonders We Can Do, er ætla að beina sjónum að jafnrétti og eflingu kvenna, sem eru meðal helstu alþjóðlegu markmiða SÞ næstu 15 árin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert