„Hákarlar eru fallegir“

Kafari sem rétt slapp lifandi undan hákarli við Mexíkóstrendur, segir þessi rándýr „falleg“. Myndskeið af lífsháska kafarans varð mjög vinsælt á YouTube þar sem horft hefur verið á það 15 milljón sinnum. 

Chan Ming var að fylgjast með hákörlum er einn slíkur braust inn í járnbúr sem hann var í. Hákarlar eru yfirleitt ekki sólgnir í mannakjöt og til að laða hákarla á svæðið hafði verið sett út beita. Hákarlinn náði beitunni og synti svo af öllu afli á búrið sem Chan var í. Svo harkalegt var höggið að búrið brotnaði. 

Chan segist hafa reynt að halda ró sinni, „því ef ég hefði farið á taugum hefði þetta verið hroðalegt.“

Hákarlinn blóðgaðist við átökin en gat loks losað sig út úr búrinu með því að fara upp um gat á því sem einn úr áhöfn Chans hafði opnað.

Þrátt fyrir þessa hræðilegu lífsreynslu er Chan jafnhrifinn af hákörlum og áður. Hann stökk svo aftur í sjóinn til að kafa að þeim daginn eftir.

„Mér finnst hákarlar ennþá mjög fallegir, þeir eru bæði fallegir og sætir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert