Flest börnin ferðast ein

Flóttamenn streyma frá Afríku til Ítalíu.
Flóttamenn streyma frá Afríku til Ítalíu. AFP

Þrjú nýfædd börn, tvö þeirra fæddust í bátum ítölsku strandgæslunnar á Miðjarðarhafinu og eitt við höfnina, eru á meðal nýjustu flóttamanna sem koma til Ítalíu. Samkvæmt UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, er fjöldi flóttabarna met.

Nýfæddu börnin braggast og dafna vel.

Fyrstu níu mánuði þessa árs komu fleiri börn sjóleiðina til Ítalíu en á öllu síðasta ári. Meira en 90% barnanna á þessu ári ferðast ein á meðan 75% barnanna ferðuðust ein í fyrra. Flest barnanna koma frá vesturhluta Afríku. 

Áætlað er að meira en 20 þúsund börn hafi komið sjóleiðina til Ítalíu án fylgdar fullorðinna á þessu ári. 

Samkvæmt starfsmönnum UNICEF á Ítalíu reynir mikið á barnaverndarkerfið á Ítalíu vegna þessa mikla fjölda. 

„Hingað koma í hverri viku mörg hundruð börn. Hvert þeirra þarfnast einhvers; allt frá viðkvæmum nýfæddum börnum til unglinga sem ferðast einir og vita ekkert hverju þeir eiga að búast við í ókunnugu landi,“ sagði Sabrina Avakian, starfsmaður UNICEF á Ítalíu. 

„Sum börnin hafa séð hræðilega hluti á leiðinni. Fólk hefur drukknað og það þjáist. Öll þurfa þau vernd og allt tekur þetta tíma,“ bætti Avakian við.

Ekki tekst öllum að komast leiðar sinnar. Nígersk móðir er enn í miklu áfalli en hún missti takið á þriggja og fjögurra ára drengjum sínum og þeir drukknuðu á leiðinni. Meira en 3.100 manns hafa drukknað á Miðjarðarhafinu það sem af er ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert