Fundu kafbát sem „sæskrímsli“ grandaði

Sónar-mynd af flakinu sem fannst úti fyrir ströndum Skotlands.
Sónar-mynd af flakinu sem fannst úti fyrir ströndum Skotlands. Mynd/Skoska rafmagnsveitan

Flak þýsks kafbáts sem sæskrímsli var sagt hafa grandað í fyrri heimsstyrjöldinni, er líklega fundið undan ströndum Skotlands.

Á sónar-myndum af þessu 100 ára gamla flaki sést að það er mjög heillegt. Í kjölfar fundarins hafa þjóðsögur um örlög kafbátsins enn og aftur farið á flug.

Sérfræðingar telja líklegt að flakið sé af UB-85 sem sæskrímsli réðst á í stríðinu samkvæmt þjóðsögunum.

Samkvæmt þessum sögum á skipstjórinn Gunther Krech að hafa sagt að þegar báturinn kom upp á yfirborðið til að hlaða geyma sína hafi „stórfurðuleg skepna“ risið upp úr sjónum. Hún hafi verið með „stór augu og með horn á höfuðkúpunni.“ Krech sagði að höfuð skepnunnar hefði verið lítið en með „tennur sem glampaði á í tunglskininu.“

Öll áhöfnin komst lífs af og var tekin til fanga af breska hernum.

Það voru starfsmenn skosku rafmagnsveitunnar sem fundu flakið er þeir voru að rannsaka hafbotninn í þeim tilgangi að finna góða leið fyrir sæstrengi.

En sagan af skrímslinu er ekki búin: áhöfn kafbátsins er sögð hafa skotið á skepnuna allt þar til hún hvarf aftur í hafið. Í þessari orrustu við sæskrímslið laskaðist kafbáturinn það mikið að hann var ónothæfur og sökk að lokum.

Hin sagan

Breski herinn hefur allt aðra sögu að segja af örlögum bátsins. Samkvæmt opinberum skýrslum hersins kom kafbáturinn UB-85 upp á yfirborð sjávar í apríl 1918. Breski herinn kom auga á hann og var honum sökkt af áhöfn herskipsins HMS Coreopsis. Ekkert sæskrímsli kom við sögu.

Sérfræðingar geta ekki enn staðfest að flakið sé af UB-85. En þeir segjast þó einu skrefi nær því að upplýsa hvað kom fyrir bátinn á sínum tíma.

Sagfræðingur segir í samtali við CNN að einnig komi til greina að um systurbát sé að ræða, UB-82. Saga hans er ekki eins þekkt. Og ekki eins skemmtileg.

Meira um UB-85

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert