Nautaat aftur leyfilegt í Katalóníu

Frá nautaati.
Frá nautaati. AFP

Hæstiréttur Spánar aflétti í dag banni á nautaati í Katalóníu. Talið er að ákvörðunin muni skapa spennu á milli dýraverndunarsinna og aðdáenda hinnar aldagömlu íþróttar.

Í yfirlýsingu sem dómurinn sendi frá sér kom fram að nautaat sé hluti spænskum hefðum. Því verði að ákveða bann, eða ekki bann, fyrir allt landið í heild sinni; ekki bara héruð eins og Katalóníu.

Lög um bann við nauta­ati voru samþykkt á katalónska þing­inu í júlí 2010 eft­ir að dýra­vernd­un­ar­sinn­ar söfnuðu 180.000 und­ir­skrift­um bann­inu til stuðnings. Tók bannið gildi í byrjun árs 2012.

Katalónía var fyrsta héraðið á meginlandi Spánar til að banna nautaat en Kanaríeyjar bönnuðu það fyrir 25 árum síðan.

Síðasta nautaatið í Barcelona fyrir bannið fór fram í september fyrir fimm árum síðan. Þá börðust þrír þekktir nautabanar við sex naut. Eftir að hafa þreytt nautið með ýmsum kúnstum endar nautaatið á því að nautabaninn stingur sverði sínu milli axla nautsins og leggur það þannig að velli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert