Nítján létust í þyrluslysi í Síberíu

Brak þyrlunnar.
Brak þyrlunnar. AFP

Nítján létust þegar þyrla með starfsmenn olíu- og gasfyrirtækis innanborðs brotlenti á afskekktu svæði í Síberíu. 22 voru um borð í þyrlunni, af gerðinni Mi-8, þegar slysið átti sér stað í Yamalo-Nenetsky. Myndir sýna brakið í molum á snæviþaktri jörðinni.

Þoka og lélegt skyggni komu í veg fyrir að björgunarmenn kæmust umsvifalaust á vettvang. Fórnarlömbin létust á staðnum, með mikla áverka, en þrír voru fluttir á sjúkrahús. Atvikið er nú til rannsóknar hjá sérstakri rannsóknarnefnd.

Vladimír Pútín Rússlandsforseti vottaði aðstandendum hinna látnu virðingu sína, að sögn talsmannsins Dmitry Peskov.

Þyrlan var á leið frá olíu- og gasvinnslusvæði í Krasnoyarsk til bæjarins Urengoi þegar slysið átti sér stað. Talsmaður þess ráðuneytis sem fer með viðbragðsmál sagði að þyrlan hefði lent á hliðinni og að fólkið hefði ekki getað komist út.

Dmitry Kobylkin, ríkisstjóri svæðisins, tilkynnti að í dag myndu íbúar syrgja og að flaggað yrði í hálfa stöng. Þá yrði skemmtiviðburðum aflýst.

Fimmtán létu lífið í samskonar slysi í bænum Igarka í Síberíu í fyrra.

Þess má geta að Rússar notast við Mi-8 þyrlur í aðgerðum sínum í Sýrlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert