Skotar íhuga aðild að EFTA

Nicola Sturgeon, ráðherra heimastjórnar Skotlands.
Nicola Sturgeon, ráðherra heimastjórnar Skotlands. AFP

Skoskir ráðamenn íhuga nú þá hugmynd að Skotland gerist aðili að Fríverslunarsamtökum Evrópu (EFTA), þar sem Ísland, Noregur, Liechtenstein og Sviss eru fyrir, og samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES) sem fyrstu þrjú ríkin eru aðilar að. Þetta kemur fram á fréttavef bresku sjónvarpsstöðvarinnar Sky. Er þetta hugsað sem viðbrögð við ákvörðun meirihluta breskra kjósenda í þjóðaratkvæði fyrr á þessu ári um að segja skilið við Evrópusambandið.

Fram kemur í fréttinni að aðild að Evrópska efnahagssvæðinu í gegnum EFTA sé einn af þeim möguleikum sem skoska heimastjórnin íhugi til þess að tryggja að Skotland verði áfram hluti af innri markaði Evrópusambandsins. Haft er eftir Nicola Sturgeon, ráðherra heimastjórnarinnar, að nákvæmar tillögur um sveigjanlegt fyrirkomulag verði lagðar fram á næstu vikum. Ekki er talið að ríkisstjórn Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, taki vel í þessar hugmyndir.

Skoskir ráðamenn hafa kortlagt fjölda tilfella þar sem ákveðnir hlutar ríkja hafa verið undanskildir aðild þeirra að Evrópusambandinu. Skoskir ráðamenn eru hins vegar að skoða leiðir til þess að verða á einhvern hátt undanskildir úrsögn Bretlands úr sambandinu. Hins vegar segir í fréttinni að ríki geti gerst aðilar að EFTA samkvæmt stofnsáttmála samtakanna. Erfitt gæti reynst fyrir skoska ráðamenn að yfirfæra þá skilgreiningu á Skotland.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert