May í kröppum dansi eftir leka

Breski forsætisráðherrann Theresa May er sagður tala gegn eigin sannfæringu …
Breski forsætisráðherrann Theresa May er sagður tala gegn eigin sannfæringu um Brexit. AFP

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, sætir nú harðri gagnrýni breskra og evrópskra þingmanna eftir að í ljós kom að hún varaði við hættunni sem útganga Breta úr Evrópusambandinu gæti haft í för með sér skömmu fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna í júní.

The Guardian birti í vikunni frétt um samtal sem May átti við stjórnendur fjárfestingarbankans Goldman Sachs mánuði fyrir Brexit-þjóðaratkvæðagreiðsluna sem fór fram í júní og byggði á upptöku sem var lekið. May, sem var fylgjandi veru Breta í Evrópusambandinu, varaði á fundinum við því að fyrirtæki gætu yfirgefið Bretland ef landið gengi úr sambandinu.

Eftir að May varð forsætisráðherra í kjölfar þess að Bretar kusu með útgöngu hefur hún verið talin taka harða afstöðu og lagt áherslu á að fækka innflytjendum frekar en að tryggja aðgang Breta að sameiginlegum markaði Evrópusambandsríkja.

Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, gagnrýnir May fyrir að hafa ekki gert valkostina eins skýra fyrir bresku þjóðinni í kosningabaráttunni í vor og sumar eins og hún gerði í samtali sínu við Goldman Sachs. Forveri hans í embætti formanns flokksins, Ed Miliband, segir að upptakan sýni að May hafi skilið vel efnahagslegu áhættuna við að segja skilið við ESB.

Talsmenn forsætisráðherrans hafa reynt að gera lítið úr ummælum hennar við fjárfestingarbankann og segja May hafa haft sömu skoðanir uppi í kosningabaráttunni og hún gerði í einrúmi með bankamönnunum. Nú sækist hún hins vegar aðeins eftir besta samningnum fyrir Breta svo þeir geti átt frjáls viðskipti á sameiginlega markaði ESB.

Lekinn hefur einnig vakið athygli utan landsteinanna. Í Þýskalandi hafa stjórnmálamenn úr báðum stjórnarflokkunum sakað May um að skorta forystuhæfileika. Ummæli hennar sýni að það yrði ómögulegt fyrir Breta að yfirgefa sambandið án efnahagslegra afleiðinga.

„Umfjöllun The Guardian sýnir að Theresa May er nú að tala gegn eigin sannfæringu. Í maí varaði hún hóp bankastjórnenda af ástríðu við hættum Brexit,“ sagði Axel Schäfer, varaformaður sósíaldemókrata í Þýskalandi.

Frétt The Guardian

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert