Enn með forystu í skoðanakönnunum

Hillary Clinton er enn með forskot á Donald Trump í …
Hillary Clinton er enn með forskot á Donald Trump í skoðanakönnunum. AFP

Demókratinn Hillary Clinton er enn með forystu í skoðanakönnunum á repúblikanann Donald Trump í kapphlaupinu um forsetaembættið í Bandaríkjunum, þrátt fyrir nýjar fregnir sem tengjast tölvupóstum úr hennar herbúðum.

Frétt mbl.is: FBI hefur ekkert mál í höndunum

Samkvæmt könnun NBC News og SurveyMonkey hefur Clinton sex prósentustiga forskot á Trump, sem er jafnmikið og fyrir viku.

James Comey, yfirmaður bandaríku alríkislögreglunnar, FBI, greindi frá því á föstudaginn að nýir tölvupóstar sem fundust í herbúðum Clinton gætu skipt sköpum í rannsókn lögreglunnar á notkun hennar á persónulegum tölvupósti sínum þegar hún starfaði sem utanríkisráðherra.

Svo virðist sem þessar upplýsingar hafi ekki haft mikil áhrif á kjósendur en kosningarnar fara fram 8. nóvember. 

Samkvæmt skoðanakönnuninni er Clinton með 47% fylgi á meðan Trump er með 41% fylgi. Frambjóðandinn Gary Johnson mældist með 6% fylgi og Jill Stein með 3%.

Samkvæmt könnuninni eru kjósendur á báðum áttum yfir því hvort þeir telji að tilkynning FBI vegna tölvupóstanna muni skipta miklu máli. 55% voru á því máli á meðan 44% töldu að hún hefði lítið að segja.

Donald Trump á kosningafundi.
Donald Trump á kosningafundi. AFP

Varar við „glæparéttarhöldum“

Donald Trump hefur varað við því að stjórnarskrár-krísa gæti komið upp ef Clinton nær kjöri sem forseti Bandaríkjanna.

Hann sagði að „glæparéttarhöld gætu verið haldin yfir sitjandi forseta“, og gagnrýndi Clinton fyrir að skella skuldinni á aðra vegna  hneykslismálsins, sem hefur staðið yfir í 20 mánuði.

„Hún hefur kallað þetta allt saman yfir sig sjálf,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert