Hersveitir komnar inn í Mosúl

Hersveitir Íraka á leið inn að Mosúl.
Hersveitir Íraka á leið inn að Mosúl. AFP

Íraskar hersveitir eru komnar inn í Mosúl. Borgin hefur verið á valdi vígamanna Ríkis íslams í tvö ár. Vígamennirnir hafa sýnt mikla mótstöðu, stráfellt óbreytta borgara og kveikt í efnaverksmiðjum. 

Hersveitirnar hafa smám saman nálgast borgina síðustu daga. Þær hafa farið þorp úr þorpi og í dag komust þær inn í úthverfi austurhluta Mosúl. Helstu vígi Ríkis íslams eru í norðanverðri borginni.

Fréttamenn eru í för með hersveitunum. Fréttamaður BBC segir að vígamennirnir hafi sýnt mikla mótstöðu. Þó að þeir séu mun færri en sveitir bandamanna hafa þeir beitt ýmsum brögðum til að halda aftur af áhlaupinu. Talið er að hersveitir Íraka telji um 50 þúsund manns en að vígamennirnir séu um 3-6 þúsund.

Í morgun hafa þeir m.a. skotið eldflaugum að herliðinu. 

Forsætisráðherra Íraks, Haider al-Abadi, hefur komið þeim skilaboðum til vígamanna Ríkis íslams að þeir skuli gefast um eða deyja að öðrum kosti.

Um ein og hálf milljón íbúa er enn innlyksa í borginni og hafa mannúðarsamtök varað við blóðbaði komi til harðra átaka milli vígamannanna og hersveitanna. Aðeins tæplega 18 þúsund íbúum hefur tekist að flýja síðustu daga. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert