FBI í hringiðu kosningabaráttunnar

James Comey, yfirmaður bandarísku alríkislögreglunnar (FBI).
James Comey, yfirmaður bandarísku alríkislögreglunnar (FBI). AFP

Baráttan um embætti forseta Bandaríkjanna hefur verið sérstaklega hatrömm og heiftúðug að þessu sinni. Bandaríska alríkislögreglan (FBI) er skyndilega orðin að miðpunkti baráttunnar eftir tvö óvenjuleg inngrip hennar sem gætu skaðað Hillary Clinton með aðeins nokkurra daga millibili.

Framboð Clinton hefur deilt hart á James Comey, yfirmann FBI, eftir að hann sendi Bandaríkjaþingi stuttort bréf fyrir helgi þar sem fram kom að alríkislögreglan hefði aftur opnað rannsókn á tölvupóstmálum Clinton þegar hún var utanríkisráðherra. Síðan hefur komið í ljós að tilefnið var að FBI fann fjölda pósta á tölvu fyrrverandi þingmannsins Anthonys Weiner sem er til rannsóknar fyrir allt aðrar sakir. Ekkert hefur komið fram um að póstarnir séu frá Clinton.

Með því að tilkynna um að rannsóknin sé hafin á nýjan leik hefur FBI jafnvel verið sökuð um að brjóta lög sem banna ríkisstofnunum að hafa áhrif á kosningar.

Frétt Mbl.is: Brýtur FBI lög með Clinton-rannsókninni?

Tíst sem birtist á lítt notaðri Twitter-síðu FBI í gær um rannsókn á umdeildri náðun Bills Clinton, eiginmanns Hillary, á styrktaraðila Demókrataflokksins síðasta dag hans í forsetaembætti varð heldur ekki til að sefa reiði stuðningsmanna forsetaframbjóðanda demókrata.

Twitter-síða sem hafði verið í dvala í meira en ár

Engar færslur höfðu birst á Twitter-síðunni @FBIRecordsVault í meira en ár þangað til á sunnudag. Þá byrjuðu tíst skyndilega að birtast með tenglum á skjöl í skjalageymslu alríkislögreglunnar, þar á meðal um Fred Trump, föður Donalds, en skjöl um hann voru birt á vefsíðu FBI í síðasta mánuði. Washington Post segir að þar virðist á ferðinni gögn sem FBI tók saman um Trump eldri árið 1988.

Í gær birtist hins vegar tíst þar sem vísað var á skjöl sem tengjast rannsókn FBI á náðun Bills Clinton á Marc Rich sem flúði til Sviss þegar hann komst að því að hann yrði ákærður fyrir skattaundanskot á 9. áratug síðustu aldar. Clinton náðaði hann á síðasti degi sínum í embætti forseta.

Útspil FBI síðustu daga virðast hafa haft áhrif á vinsældir …
Útspil FBI síðustu daga virðast hafa haft áhrif á vinsældir Hillary Clinton. AFP

FBI rannsakaði hvort forsetinn hefði náðað Rich í skiptum fyrir fjárframlög, þar á meðal til Clinton-sjóðsins og framboðs Hillary til öldungadeildarinnar árið 2000. Rannsókn FBI stóð yfir frá 2001 til 2005 en lauk án ákæru.

Embættismenn FBI segja að tilviljun ein hafi ráðið tímasetningu tístsins. Það hafi verið sett inn vélrænt og sjálfkrafa í samræmi við lög og reglur. Þessi sjálfkrafa birting hafi ekki verið virk frá því á síðasta ári en því hafi nýlega verið kippt í liðinn þegar síðan var uppfærð. 

Færri áhugasamir um að kjósa Clinton eftir bréfið

Talsmenn Hillary Clinton brugðust hart við; spurðu hvort FBI ætlaði sér einnig að birta óþægilegar upplýsingar um Trump og sökuðu alríkislögregluna um að vera orðna að pólitískri stofnun í augum Bandaríkjamanna. Harry Reid, leiðtogi demókrata í öldungadeildinni, hefur jafnvel fullyrt að Comey liggi á upplýsingum um tengsl Trump við stjórnvöld í Kreml.

Skoðanakönnun Washington Post og ABC-sjónvarpsstöðvarinnar sem birt var í gær sýndi að Trump hefur nú eins prósentustigs forskot á Clinton í kjölfar þess að Comey, sem var lengi skráður í Repúblikanaflokkinn, sendi bréf sitt um rannsóknina á tölvupóstum hennar.

Frétt Mbl.is: Trump nær forskoti á Clinton

Það sem boðar enn verra fyrir Clinton er að vendingarnar með FBI virðast hafa latt kjósendur hennar til að greiða henni atkvæði sitt. Þannig leiddi könnunin í ljós að viku fyrir bréf Comey til þingsins hefði lítill munur verið á þeim sem sögðust mjög áhugasamir um að kjósa frambjóðendurna tvo. Eftir að ljóst varð að rannsóknin hefði verið opnuð aftur fór hlutfallið hjá Clinton úr 51% niður í 43% en óbreytt hlutfall hafði enn eldmóð fyrir Trump, 53%.

Frétt Washington Post um tíst FBI

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert