Trump á alvöru möguleika á sigri

Stuðningsmaður Donalds Trump. Kosningaspár útiloka ekki að hann geti unnið …
Stuðningsmaður Donalds Trump. Kosningaspár útiloka ekki að hann geti unnið sigur í forsetakosningunum. AFP

Þrátt fyrir að ný skoðanakönnun sýni að Donald Trump hafi skotist fram úr Hillary Clinton benda ítarlegri kosningaspár enn til þess að Clinton verði kjörin forseti Bandaríkjanna. Baldur Héðinsson stærðfræðingur segir að Trump eigi engu að síður alvörumöguleika á að sigra í forsetakosningunum vestanhafs.

Möguleikar Trump á að verða næsti forseti Bandaríkjanna virtust fyrir bí eftir að gömul upptaka af honum þar sem hann lýsti því hvernig hann gæti misnotað konur kynferðislega í krafti stöðu sinnar var gerð opinber í síðasta mánuði. Ummælin ollu mikilli hneykslan og jók Clinton forskot sitt á frambjóðanda repúblikana í skoðanakönnunum í kjölfarið.

Frétt Mbl.is: Trump nær forskoti á Clinton

Undanfarið hefur hins vegar dregið saman með þeim aftur, ekki síst eftir að yfirmaður alríkislögreglunnar upplýsti að rannsókn á tölvupóstsmálum Clinton þegar hún var utanríkisráðherra hefði verið opnuð aftur. Könnun Washington Post og ABC-sjónvarpsstöðvarinnar sýndi þannig Trump með eins prósentustigs forskot á Clinton í gær sem er þó sagður tölfræðilega ómarktækur munur.

Staðan í ríkjunum skiptir máli, ekki landinu öllu

Baldur varar hins vegar við leggja of mikið upp úr þessari nýjustu skoðanakönnun því hún mæli aðeins fylgi frambjóðendanna á landsvísu. Í raun skipti engu hvor frambjóðandinn er ofar því það sé ekki fylgi á landsvísu sem ræður því hver verður forseti.

„Það getur vel verið að þær kannanir séu mjög jafnar en málið er að það er ekki það sem ákveður hver verður forseti heldur er það niðurstaðan úr ríkjunum. Það eru kosningarnar í ríkjunum sem úthluta kjörmönnum og það eru kjörmenn sem ákveða hver verður forseti,“ segir Baldur og bendir á að þegar George W. Bush sigraði Al Gore í forsetakosningunum árið 2000 hafi frambjóðandi demókrata tapað þrátt fyrir að hafa fleiri atkvæði á landsvísu.

Til að fá alvöru greiningu á því hversu líklegt er hver verður forseti þarf að skoða hvaða skoðanakannanir í öllum ríkjum Bandaríkjanna segja. Baldur segir það sama eiga við á Íslandi með kjördæmin. Hægt sé að mæla fylgi flokka á landsvísu en það sé hins vegar fylgið í kjördæmunum sem úthlutar þingmönnunum.

Frétt Mbl.is: Spáði rétt fyrir um úrslit kosninganna

Þar koma til sögunnar ítarlegar kosningaspár sem tölfræðingar eins og Bandaríkjamaðurinn Nate Silver vinna. Kosningaspá Silver vakti fyrst töluverða athygli í kringum forsetakosningarnar vestanhafs árið 2012 þegar Barack Obama og Mitt Romney tókust á.

Þá bentu hefðbundnar skoðanakannanir til þess að ekki mætti á milli frambjóðendanna sjá og hömruðu fjölmiðlar á því hversu spennandi kosningarnar yrðu. Spá Silver gerði hins vegar ráð fyrir að langmestar líkur væru á sigri Obama eins og raunin varð en til viðbótar hafði hann rétt fyrir sér um sigurvegarann í öllum ríkjum Bandaríkjanna.

Utankjörfundarkjörseðill fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum.
Utankjörfundarkjörseðill fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum. AFP

Fjöldi þátta tekinn inn í spána

Baldur segir að kosningarspár af þessu tagi séu tiltölulega nýjar af nálinni. Þær hafi ekki verið þekktar fyrir um tíu árum en fyrir um sex til sjö árum hafi þær byrjað að ryðja sér til rúms. Fyrst hafi kosningaspár Silver verið í einfaldri mynd en aðferðafræðin hafi þróast mikið og sé nú orðin ítarleg.

Spárnar byggja meðal annars á skoðanakönnunum úr öllum ríkjunum og sögulegum gögnum um hversu áreiðanlegar kannanir mismunandi aðila á hverjum stað hafi verið í gegnum tíðina. Inn í þetta er teknar upplýsingar um íbúasamsetningu ríkjanna, skráða flokksmenn, efnahagsástand og fleiri þætti.

„Hann notar þetta til að fá út hver er líklegasta niðurstaðan í þessu ríki. Ef líklegasta niðurstaðan er að Hillary vinni ríkið skoðar hann líka hversu líklegt er að skoðanakannanirnar séu ekki réttar og Trump geti unnið þetta ríki. Svo tekur hann þetta saman fyrir öll ríkin og fær þannig greiningu niður á landið,“ segir Baldur. 

Með þessari aðferð fæst ekki aðeins greining á því hver sé líklegastur til þess að sigra í kosningum heldur einnig hversu öruggur sá frambjóðandi er með sigur.

Vildir ekki fljúga með 30% líkum á hrapi

Eins og spá Silver sem birtist á vefsíðunni Five Thirty Eight stendur nú eru 71% líkur á því að Clinton sigri en 29% að Trump verði forseti. Spurður að því hvort könnunin sem sýndi Trump með forskot geti verið merki um að sveifla sé að verða á fylgi frambjóðandanna segir Baldur að það geti tekið smá tíma fyrir hana að koma fram í kosningaspám.

Munurinn á Trump og Clinton hafi verið meiri í spá Silver, nær 85% Clinton gegn 15% Trump fyrir tveimur vikum. Líkur Trump á að verða forseti hafi því aukist nokkuð. Ef sama þróun haldi áfram nálgist kosningabaráttan að verða mjög jöfn.

„Ég myndi segja að núna þegar Trump er með um 30% líkur þá er ekki hægt að líta á sigur hans sem mjög ólíklegan atburð. Hann er ólíklegri til að vinna en ef það eru 30% líkur á atburði má vænta að slíkur atburður eigi sér stað í eitt af hverjum þremur skiptum. Þú vildir ekki fljúga í flugvél sem væri 30% líkur á að myndi hrapa. Þetta eru alvörulíkur, það er engin spurning,“ segir Baldur.

Spár hafa gildi til að meta stöðuna fyrir kosningar

Baldur vann kosningaspá sem birtist í vefmiðlinum Kjarnanum í aðdraganda alþingiskosninganna sem fóru fram um helgina. Hún byggðist á skoðanakönnunum og hermilíkönum á líklegum niðurstöðum. Hann segir spána hafa gengið vel eftir.

Sem dæmi nefnir hann að kosningaspáin hafi gefið 43 þingmönnum á bilinu 80-100% líkur á að ná þingsæti. Af þeim hafi fjörutíu komist inn. Það séu meira en 90% hlutfall sem Baldur segir benda til þess að líkan hans sé ágætlega kvarðað.

Baldur Héðinsson, stærðfræðingur.
Baldur Héðinsson, stærðfræðingur.

Þá nefnir hann að skoðanakannanir hafi sýnt að Björt framtíð fengi einn þingmann í Suðvesturkjördæmi. Spálíkan hans hafi bent til þess að 40% líkur væru á að flokkurinn næði öðrum manni inn sem varð svo raunin. Það gaf þannig ítarlegri mynd af því hvernig þingsæti gætu dreifst en hefðbundnar skoðanakannanir.

„Að mínu mati hefur það að ná að sýna hverjar þessar líkur eru gildi til að skilja betur hver staðan er fyrir kosningar,“ segir Baldur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert