Ól barn í bílnum, ber að greiða 7.400 dali

/AFP

„Aldrei nokkurn tímann hafði ég gert mér í hugarlund að þetta myndi gerast,“ segir Paula D'Amore, sem ól barn sitt í aftursæti jeppabifreiðar sinnar fyrr á árinu. D'Amore, sem býr í Bandaríkjunum, hefur staðið í ströngu við sjúkrahúsið þar sem til stóð að hún myndi ala barnið, vegna rukkunar upp á 7.400 dollara fyrir þjónustu við að ala barnið. Upphæðin samsvarar um 822.000 krónum.

Þann 7. apríl lagði D'Amore af stað á fæðingardeildina ásamt eiginmanni sínum en ekki vildi betur til en svo að hún ól barnið í aftursæti bílsins á planinu við sjúkrahúsið.

Eiginmaður D'Amore hljóp inn á sjúkrahúsið og kallaði eftir aðstoð starfsfólks þar sem eiginkona hans væri í þann mund að fæða. Þegar hann kom til baka og opnaði dyr bílsins var höfuð barnsins þegar að koma út og byrjaði faðirinn sjálfur að taka á móti barni sínu. Skömmu síðar tók hjúkrunarstarfsfólk á móti nýfæddri dóttur þeirra hjóna og fékk stúlkan nafnið Danielle.

Eftir að barnið var fætt í bílnum var farið með móðurina og nýfædda dóttur í hjúkrunarrými, þar sem allar fæðingastofur á Boca Raton-svæðissjúkrahúsinu voru fullar. Þar sem hún ól barnið í bílnum kom það D'Amore því heldur betur í opna skjöldu þegar hún fékk reikning frá sjúkrahúsinu, rukkun fyrir fæðingarstofu sem hljóðaði upp á 7.400 Bandaríkjadali.

Dýr trygging dugar ekki til

„Ég bara hló,“ sagði D'Amore þegar hún fékk reikninginn. „Þú hlýtur að vera að grínast? Hvernig er hægt að rukka fyrir þjónustu sem var ekki veitt?“ 

D'Amore og eiginmaður hennar höfðu skipt yfir í sjúkratryggingapakka að verðmæti 5.000 dollarar sem þau höfðu lagt til hliðar fyrir vegna væntanlegrar komu dótturinnar í heiminn, sem setur 5.000 dollara þak á möguleg útgjöld þeirra vegna fæðingarinnar. Þá hefur D'Amore ekki gert athugasemdir við greiðslur fyrir aðra þjónustu, þar á meðal ljósmóðurkostnað. Hún neitar þó að gangast við því að greiða reikning fyrir fæðingarstofuna, þar sem hún ól barnið í bílnum. 

„Ég get ekki kyngt því að þeir hafi heimild til að rukka 7.000 dollara,“ sagði D'Amore.

Kostnaður vegna fæðinga hefur þrefaldast frá 1996

Fæðingarþjónusta er meðal dýrustu þjónustu í heilbrigðiskerfinu í Bandaríkjunum, en samkvæmt rannsókn Truven Health Analytics hefur kostnaðurinn við að ala barn þrefaldast frá árinu 1996. Truven komst jafnframt að því að meðalkostaður við meðgöngu og umönnun nýbura væri um 30 þúsund dollarar fyrir náttúrulega fæðingu og 50 þúsund dollarar fyrir keisaraskurð. 

Að höfðu samráði við ráðgjafa á vegum vinnuveitanda föður stúlkunnar greindi D'Amore sjúkrahúsinu frá óánægju sinni en sögðu talsmenn sjúkrahússins að ekkert athugavert væri við rukkunina.

„Boca Raton-svæðissjúkrahúsið hefur skoðað málið, skilur áhyggjur sjúklingsins og hefur áður gert tilraun til að leysa úr málinu vegna áhyggja sjúklings vegna útistandandi skuldar,“ segir Thomas Chakurda, varaforseti markaðsdeildar sjúkrahússins, í tilkynningu. „Sjúkrahúsið rukkar með eðlilegum hætti fyrir þá heilbrigðisþjónustu og umönnun sem það veitir og hefur ákvarðað að sú þjónusta sem var veitt og það gjald sem rukkað er fyrir sé í réttu samræmi við aðstæður. Við tökum áhyggjur D'Amore alvarlega og erum viljug til að skoða þær nánar,“ segir jafnframt í yfirlýsingunni.

Frétt Guardian

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert