Playboy-stjarna ákærð vegna myndbirtingar

Hér má sjá myndina sem Mathers birti á Snapchat.
Hér má sjá myndina sem Mathers birti á Snapchat.

Lögreglan í Los Angeles hefur ákært Playboy-fyrirsætuna Dani Mathers fyrir að hafa tekið mynd og gert grín að vaxtarlagi konu í búningsklefa og birt á samfélagsmiðlum. Mathers er ákærð fyrir brot á lögum um friðhelgi einkalífsins og gæti átt yfir höfði sér allt að 6 mánaða fangelsi og þúsund dollara fjársekt, eða um 110 þúsund krónur, verði hún fundin sek.

Frétt Smartlands: Gerði grín að vaxt­ar­lagi nak­inn­ar konu

Myndin var tekin í búningsklefa af 70 ára gamalli konu í líkamsræktarstöð í Los Angeles í júlí, án vitundar konunnar, og birt á samfélagsmiðlum.

Mathers baðst afsökunar fljótlega eftir að hún deildi myndinni en hún segist hafa talið sig vera að deila myndinni í lokuðu samtali á Snapchat og bætti við að hún teldi rangt að dæma fólk út frá vaxtarlagi.

Samkvæmt fjölmiðlum vestanhafs segir lögfræðingur fyrirsætunnar, Thomas Mesereau, að umbjóðandi hans hafi ekki ráðist gegn friðhelgi einkalífs nokkurs né hafi brotið nokkur lög. Þegar saksóknari í Los Angeles greindi frá ákærunni sagði hann ákæruna taka mið af því að athæfið væri „niðurlægjandi, oft sársaukafullt og getur haft langvarandi afleiðingar“.

Í ofanálag hefur Mathers verið bannaður aðgangur að öllum líkamsræktarstöðvum keðjunnar sem um ræðir, verið sagt upp störfum á útvarpsstöðinni þar sem hún starfaði og hefur sætt mikilli gagnrýni í netheimum. 

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert