Felldu tillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu

AFP

Efri deild ástralska þingsins hafnaði í dag tillögu ríkisstjórnar landsins um að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort heimila eigi fólki af sama kyni að ganga í hjónaband.

Alls greiddu 33 öldungadeildarþingmenn atkvæði gegn tillögu ríkisstjórnarinnar en 29 greiddu atkvæði með tillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu. 

Dómsmálaráðherra Ástralíu, George Brandis, kynnti frumvarpið í öldungadeildinni en þar er ríkisstjórnin ekki með meirihluta. Brandis hvatti efri deildina til þess að hætta pólitískum hráskinnaleik þar sem ráðskast er með líf samkynhneigðra. Til mjög harðra skoðanaskipta kom á þingfundinum í dag.

Umræðan um hjónabönd samkynhneigðra hefur staðið yfir í meira en áratug og vonaðist forsætisráðherra Ástralíu, Malcolm Turnbull, eftir að hægt yrði að leysa þetta í eitt skipti fyrir öll með þjóðaratkvæðagreiðslu 11. febrúar.

En þingmenn Verkamannaflokksins lögðust gegn atkvæðagreiðslunni og sögðu hana of kostnaðarsama. Eins kæmi hún sér illa fyrir þá sem væru í samkynhneigðum samböndum og fjölskyldur þeirra. Í flestum ríkjum Ástralíu getur fólk af sama kyni skráð sig í sambúð en Ástralía hefur dregist aftur úr í réttindabaráttu samkynhneigðra með því að banna þeim að ganga í hjónaband. Ekki er litið á skráða sambúð sömu augum og hjónaband samkvæmt áströlskum lögum. 

Turnbull, sem hefur lengi stutt við baráttu samkynhneigðra um að fá að ganga í hjónaband, segir að þrátt fyrir að þjóðaratkvæðagreiðslan myndi kosta um 170 milljónir Ástralíudala þá gefi hún öllum landsmönnum kost á að tjá skoðun sína.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert