Leggur traust sitt á Trump

Donald Trump ásamt konu sinni Melaniu.
Donald Trump ásamt konu sinni Melaniu. AFP

Heimurinn býst við því af Bandaríkjunum, að þau standi við þær skuldbindingar sem þau gengust undir í tímamóta Parísarsamkomulagi, þrátt fyrir heit Donalds Trumps, verðandi Bandaríkjaforseta, um að draga til baka þátttöku landsins í samkomulaginu.

Þetta segir Salaheddine Mezouar, formaður sérstaks ráðs á vegum Sameinuðu þjóðanna sem sér um eftirlit með því að skyldur samkomulagsins séu uppfylltar, í samtali við fréttaveitu AFP.

„Fullgilding samkomulagsins þýðir að ríkisstjórnir verða að gangast við ábyrgðinni sem þær tókust á hendur. Það myndi, að ég held, vera ákaflega erfitt að draga þátttökuna til baka - það verður ekki aftur snúið,“ bætir hann við.

Fréttirnar komu flatt upp á marga

Ráðið kom saman hinn 7. nóvember og standa fundir þess yfir til 18. nóvember. Þær fréttir, að hinn svarni afneitari loftslagsvísinda, Donald Trump, hefði náð yfirráðum í Hvíta húsinu, komu því flatt upp á marga fundargesti.

Aðalritari SÞ, Ban Ki-moon, segist þá treysta því að Donald Trump muni ekki snúa baki við samkomulaginu, þrátt fyrir kosningaloforð hans um að hætta við þátttöku Bandaríkjanna í því.

„Hann hefur látið frá sér fjölda fullyrðinga sem valdið hafa mér áhyggjum, en ég er viss um að hann skilji mikilvægi þessa, alvarleika og nauðsyn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert