Trump má ekki gleyma Aleppo eða Krímskaga

Ursula von der Leyen, varnarmálaráðherra Þýskalands, segir Trump ekki mega …
Ursula von der Leyen, varnarmálaráðherra Þýskalands, segir Trump ekki mega horfa framhjá aðgerðum Rússa á Krímskaga eða í Aleppo þó hann vilji bæta samskipti Bandaríkjanna og Rússlands. AFP

Stjórnvöld í Þýskalandi styðja viðræður milli Bandaríkjanna og Rússlands, en Donald Trump, nýkjörin forseti Bandaríkjanna, má þó ekki horfa framhjá aðgerðum Rússa á Krímskaga eða í Aleppo þegar hann fundar með Vladimír Pútín Rússlandsforseta.

Þetta kom fram í máli Ursulu von der Leyen, varnarmálaráherra Þýskalands á fundi í Berlín í dag. Von der Leyen sagði einnig að NATO væri sama sem „dautt“ ef eitt aðildarríkja Atlandshafsbandalagsins neitaði að koma öðru ríki til hjálpar þegar á það væri ráðist.

Trump, sem fór með sigur af hólmi í forsetakosningunum á þriðjudag, lofaði Pútín ítrekað á meðan á kosningabaráttunni stóð og dró í efa hvort Bandaríkin ættu að koma öðrum NATO ríkjum til hjálpar, þar sem þau greiddu ekki jafn mikið til bandalagsins.

 „Það er af hinu góða þegar nýr Bandaríkjaforseti leitar strax eftir viðræðum við forseta Rússlands. Það er af hinu góða og nýtur fulls stuðnings okkar,“ sagði von der Leyen.

„Það sem hins vegar má ekki gerast er að gleyma – að gleyma innlimun Krímskaga, gleyma skærunum í Úkraínu eða gleyma loftárásunum á Aleppo.“

Kjör Trumps hefur komið stjórnvöldum í Þýskalandi og víðar úr jafnvægi, en ríkisstjórn Þýskalands hefur verið aðaldriffjöðrin að baki efnahagsþvingunum Evrópusambandsins gegn Rússum vegna hernaðarumsvifa þeirra í Úkraínu. Þau  hafa aukinheldur fordæmt loftárásir Rússa á almenna borgara í austurhluta Aleppo í Sýrlandi, sem er á valdi uppreisnarmanna.

Reuters-fréttastofan segir stjórnvöld í Rússlandi vonast til að sameinað viðhorf Bandaríkjanna og Evrópu varðandi efnahagsþvinganirnar láti undan er Trump tekur við embætti. Talsmaður rússneskra stjórnvalda lýsti í gær viðhorfi þeirra Trumps og Pútíns til utanríkismála sem „ótrúlega líkum“.

Von der Leyen sagði þá að með Trump sem forseta mundu Þýskaland og Evrópa líklega þurfa að axla meiri ábyrgð á eigin varnarmálum. Þýska stjórnin ætti þó enn í vanda með að svara hvaða afleiðingar það mundi hafa þegar Trump tæki við. „Við vitum hér um bil ekki neitt,“ bætti hún við.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert