„Haukur“ settur yfir CIA

Mike Pompeo, nýr yfirmaður bandarísku leyniþjónustunnar (CIA).
Mike Pompeo, nýr yfirmaður bandarísku leyniþjónustunnar (CIA). ljósmynd/Bandaríkjaþing

Fulltrúadeildarþingmaðurinn Mike Pompeo, sem Donald Trump hefur valið til að stýra bandarísku leyniþjónustunni (CIA), er sagður svonefndur haukur í utanríkismálum og hefur verið harður andstæðingur kjarnorkusamkomulags vesturveldanna við Íran.

Sem þingmaður og fulltrúi í leyniþjónustunefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings frá árinu 2013 hefur Pompeo deilt hart á ríkisstjórn Baracks Obama fyrir að samþykkja að létta viðskiptahömlum af Íran gegn því að írönsk stjórnvöld stöðvi kjarnorkuáætlun sína.

„Ég hlakka til að vinda ofan af þessum hrikalega samningi við stærsta stuðningsríki hryðjuverka í heiminum,“ skrifaði Pompeo á Twitter í gær áður en tilkynnt var um tilnefningu hans. Formaður leyniþjónustunefndarinnar sem þarf að staðfesta skipan hans fagnaði tilnefningunni í dag.

Einn leiðtoga Benghazi-nefndarinnar

Pompeo gekk í West Point-herskólann og útskrifaðist síðar frá lagadeild Harvard-háskóla. Hann starfaði síðar fyrir lögmannsstofuna Williams og Connolly, sem er sögð höll undir Repúblikanaflokkinn.  Þá rak hann og seldi síðar flug- og geimiðnaðarfyrirtækið Thayer Aerospace.

Hann naut stuðnings milljarðamæringanna Koch-bræðra, sem hafa mikil áhrif í röðum íhaldsmanna í Bandaríkjunum, þegar hann var kjörinn þingmaður Kansas árið 2010, en þá var hann meðlimur harðlínuhópsins Teboðshreyfingarinnar.

Í fulltrúadeildinni var Pompeo meðal annars einn leiðtoga Benghazi-nefndarinnar, sem rannsakaði árás á bandarísku ræðismannsskrifstofuna í líbísku borginni árið 2012. Fjórir Bandaríkjamenn, þar á meðal sendiherrann, fórsut í árásinni. Nefndin beindi sjónum sínum sérstaklega að Hillary Clinton, sem var utanríkisráðherra þegar árásin átti sér stað. Repúblikanar voru sakaðir um að misbeita valdi þingnefndarinnar til þess að koma höggi á Clinton.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert