Hyggja á röð árása í Írak og Sýrlandi

Orrustuþotur og herskip sjást hér út um glugga bandarísks flugmóðurskips.
Orrustuþotur og herskip sjást hér út um glugga bandarísks flugmóðurskips. AFP

Áform um gagnárásir Bandaríkjanna, til að svara fyrir árásir gegn bandarískum hermönnum í Mið-Austurlöndum – þar á meðal þeirri sem varð þremur að bana á sunnudag, liggja nú fyrir og hafa verið samþykkt.

Þetta hefur fréttastofa CBS eftir embættismönnum vestanhafs.

Veður skiptir máli

Lagt hefur verið á ráðin um röð árása yfir fleiri daga gegn skotmörkum í Írak og Sýrlandi. Beinast þær meðal annars að írönskum hermönnum og bækistöðvum þeirra.

Veður mun skipta miklu máli við tímasetningu árásanna, að sögn embættismannanna. Bandaríski herinn geti vissulega ráðist til atlögu í slæmu veðri en velji frekar að hafa betri sýn yfir þau skotmörk sem hafa orðið fyrir valinu.

Þannig verði betur komið í veg fyrir mannfall almennra borgara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert