Neydd til að afhenda nauðgara barnið

Noemi neyðist til að ala dóttur sína upp með manninum …
Noemi neyðist til að ala dóttur sína upp með manninum sem nauðgaði henni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hinni 18 ára Noemi fannst hún vera föst í martröð þegar hún komst að því að hún ætti engra annarra kosta völ en að afhenda manninum sem nauðgaði henni dóttur þeirra. Samkvæmt lögum Nebraska-ríkis ber henni að virða heimsóknarrétt árásarmannsins.

Um þetta er fjallað hjá CNN.

Stærsti ótti Noemi er að eitthvað slæmt hendi dóttur hennar. „Ég veit ekki hvað hann gæti gert dóttur minni,“ segir hún.

Saga Noemi er ekki einsdæmi en áþekk lög eru í gildi víða í Bandaríkjunum, sem gera það að verkum að konur neyðast til að deila börnum sínum með mönnunum sem réðust á þær og nauðguðu þeim.

Áætlað er að á milli 17.000 og 23.000 konur í Bandaríkjunum verði óléttar í kjölfar nauðgunar á hverju ári. Um það bil 32-50% ákveða að eignast barnið. Að þessu gefnu er talið að 5.000 til 16.000 konur eigi á hættu að lenda í sömu aðstæðum og Noemi, en það veltur á því hvar þær búa og hvar árásin átti sér stað.

Það tekur andlega á að skipuleggja heimsóknirnar.

„Nú þarf ég að senda þeim sem nauðgaði mér sms eða tölvupóst,“ segir Noemi. „Að skilja dóttir mína eftir hjá manni sem ég treysti ekki. Ég er neydd til að ala hana upp með honum og hitta hann vikulega... til að tala við hann um skólagöngu dóttur minnar og heilsu hennar.“

Noemi og barnsfaðir hennar unnu saman á skyndibitastað þegar hann nauðgaði henni eitt kvöld eftir vinnu. Til þess að eiga rétt á niðurgreiddri læknisaðstoð þurfti Noemi að gera grein fyrir því hver faðir barnsins væri.

Fimm mánuðum eftir að Noemi átti dóttur sína óskaði árásarmaðurinn eftir reglulegum heimsóknum. Eftir nokkurt þref náði hann því fram að fá að heimsækja dóttur sína í nokkrar klukkustundir aðra hverja helgi, og tvo þriðjudaga í hverjum mánuði.

Noemi hafði ekkert um þá ákvörðun að segja.

Ítarlega frétt um málið er að finna hjá CNN.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert