Corbyn „rugludallur“, May „í léttvigt“

Heimildamaður Sunday Times segir Blair (t.v.) telja Jeremy Corbyn (t.h.) …
Heimildamaður Sunday Times segir Blair (t.v.) telja Jeremy Corbyn (t.h.) vera rugludall. AFP

Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, er sagður huga að endurkomu í bresk stjórnmál þar sem hann telur sig geta fyllt upp í tómarúm. Það telji hann tilkomið af því að Theresa May forsætisráðherra sé í „léttvigt“ og Jeremy Corbyn, formaður Verkamannaflokksins, sé „rugludallur“.

Breska blaðið Sunday Times fullyrðir að Blair sé nú að leita að skrifstofuaðstöðu í Westminster til að undirbúa endurkomu sína í stjórnmálin. Blair er einn umdeildasti forsætisráðherra Bretlands, meðal annars vegna Íraksstríðsins sem hann hóf ásamt George W. Bush, þáverandi forseta Bandaríkjanna, árið 2003. Það reyndist byggt á fölskum forsendum.

Frétt Mbl.is: Blair útilokar ekki endurkomu

Nafnlaus heimildamaður The Times segir að Blair þyki ekki mikið til May koma.

„Honum finnst hún vera í algerri léttvigt. Hann telur að Jeremy Corbyn sé rugludallur og að íhaldsmenn séu að klúðra Brexit,“ hefur blaðið eftir honum. Talsmaður Blair sagði blaðinu hins vegar að hann hefði ekki tekið ákvörðun um að færa starfsemi sína til Westminster.

Blair, sem var jafnframt formaður Verkamannaflokksins á sínum tíma, hefur kallað eftir annarri þjóðaratkvæðagreiðslu um útgöngu Breta úr Evrópusambandinu þegar ljósara verður hvað hún hefur í för með sér.

Aðeins tveimur vikum eftir Brexit-þjóðaratkvæðagreiðsluna kom Chilcot-skýrslan svonefnda út þar sem Blair var gagnrýndur harkalega vegna Íraksstríðsins. Blair hefur hins vegar ítrekað fullyrt að hann hafi fari fram í góðri trú sem byggðist á upplýsingum sem hann fékk frá leyniþjónustunni áður en ákvörðun um innrásina var tekin.

Frétt The Independent

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert