Banna veggspjöld með mynd af hommum

Eitt veggspjaldið á strætóskýli í frönsku borginni Rennes.
Eitt veggspjaldið á strætóskýli í frönsku borginni Rennes. AFP

Að minnsta kosti tíu franskir bæjar- og borgarstjórar hafa ákveðið að taka niður veggspjöld heilbrigðisráðuneytisins þar sem tveir karlmenn sjást í faðmlögum. Um er að ræða auglýsingar um forvarnir gegn HIV-smiti. Franskir dómstólar munu nú fjalla um aðgerðir borgarstjóranna. 

Á spjöldunum má sjá tvo karlmenn í faðmlögum og á þeim standa slagorð um öruggt kynlíf.

Borgarstjórarnir segja að fordómar um samkynhneigð hafi ekki knúið þá til að taka spjöldin niður heldur hafi þeir efasemdir um boðskap herferðarinnar. Heilbrigðisráðherra Frakka, Marisol Touraine, segir að málið verði útkljáð fyrir dómstólum.

Í frétt BBC um málið segir að spjöldin hafi verið send til 130 borga og bæja. Á þeim má sjá karlmenn á ýmsum aldri og af ýmsum kynþáttum.

Heilbrigðisráðherrann Touraine segir að bann bæjar- og borgarstjóra gegn uppsetningu spjalda sé óásættanlegt. Hún hefur hvatt fólk til að dreifa myndunum, m.a. á samfélagsmiðlum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert