Rússar dreifðu falsfréttum um Clinton

Vladimír Pútín Rússlandsforseti á fundi í Kreml fyrr í dag.
Vladimír Pútín Rússlandsforseti á fundi í Kreml fyrr í dag. AFP

Mikið flæði falsfrétta í kosningabaráttunni vestanhafs naut stuðnings háþróaðrar rússneskrar áróðursvélar, sem bjó til og dreifði misvísandi greinum á veraldarvefnum, með það að markmiði að rægja Hillary Clinton og hjálpa Donald Trump þannig að komast í embætti forseta.

Þetta segja rannsakendur sem unnið hafa sjálfstætt að því að greina þessar aðgerðir Rússa, en Washington Post greinir frá.

Áróðursvél þeirra, sem fól í sér þúsundir tölva sem sýktar hafa verið af tölvuveirum, fjölmenna hópa fólks sem starfa við ýmiss konar skriftir á vefnum og heilt net vefsíðna og gervipersóna á samfélagsmiðlum, endurómaði og magnaði upp þann áróður sem barst frá hægrisinnuðum fréttavefjum í Bandaríkjunum.

Var Clinton þar látin líta út fyrir að vera glæpamaður, mögulega á grafarbakkanum, og hún sögð búa sig undir að afhenda völd ríkisins til dularfullrar klíku ofurríkra manna. Þá var einnig reynt að ýkja þá spennu sem ríkt hefur í alþjóðastjórnmálum og vekja meiri ótta gagnvart kjarnorkuveldinu Rússlandi.

Donald Trump, verðandi Bandaríkjaforseti.
Donald Trump, verðandi Bandaríkjaforseti. AFP

Erfitt fyrir daga samfélagsmiðla

Í niðurstöðum tveggja aðskilinna hópa rannsakenda segir að Rússarnir hafi notfært sér samfélagsmiðla sem grundvöll til að ráðast gegn bandarísku lýðræði á einstaklega viðkvæmri stundu, einmitt þegar andófsmaður reyndi að ríða öldu óánægju alla leið í Hvíta húsið.

Engin leið er að vita hvort áróðursvélin hafði úrslitaáhrif á kjör Trumps í forsetaembættið.

„Þeir vilja í raun grafa undan trausti á bandarísku ríkisstjórnina,“ segir Clint Watts, einn rannsakendanna, sem ásamt tveimur öðrum hefur fylgst með rússneskum áróðri síðan árið 2014.

„Þetta var þeirra sérkenni í kalda stríðinu. Vandinn er sá að þetta var erfitt þá, áður en samfélagsmiðlar komu til sögunnar.“

Umfjöllun Washington Post

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert