Fillon frambjóðandi repúblikana í Frakklandi

Francois Fillon verður forsetaframbjóðandi franska Repúblikanaflokksins. Fréttavefur BBC greindi frá því nú í kvöld að Alain Juppe, mótframbjóðandi Fillon, sé búinn að játa sig sigraðan.

Þegar búið var að telja mikinn meirihluta atkvæða hafði Fillon hlotið tæp 67% atkvæða, en Juppe 33,1%.

Eftir að úrslitin lágu fyrir sagði Fillon að nú þyrfti að grípa til aðgerða til að reisa réttlátara þjóðfélag.

Líklegt þykir að Fillon muni etja kappi við framjóðanda þjóðern­is­flokks­ins Front Nati­onal, Mar­ine Le Pen um forsetastólinn, þar sem Sósí­al­ista­flokk­ur­inn, sem er nú við völd í Frakklandi, nýt­ur lít­ils stuðnings meðal lands­manna.

„Nálgun mín mætir skilningi,“ sagði Fillon við stuðningsmenn sína. „Frakkar þola ekki þessa hnignun. Þess í stað vilja þeir sannleika og aðgerðir.“

Juppe, sem þótti hófsamari en mótframbjóðandi hans, óskaði Fillon til hamingju með stórsigurinn og hét honum stuðningi í forsetaslagnum.

Búið var að telja atkvæði frá 9.334 kjörstöðum af 10.229 þegar það lá fyrir að Fillon hefði hlotið 66,9% atkvæða. Fillon hafði verið spáð sigri í forvali flokksins, eftir að hann hlaut 44% atkvæða í fyrstu umferð forvalsins þar sem fyrrverandi forseti landsins, Nicolas Sarkozy, hlaut ekki nægan stuðning til að komast upp í aðra umferð.

Fillon gegndi embætti forsætisráðherra í forsetatíð Sarkozy. Hann er 62 ára kaþólikki og þykir íhaldssamur í skoðunum á málefnum á borð við fóstureyðingu og hjónaband samkynhneigðra.

Hann hefur lagt til umfangsmiklar breytingar á efnahagsstjórn landsins sem m.a. fela í sér að fækka störfum hjá hinu opinbera um 500.000 stöður. Þá vill hann binda endi á 35 stunda vinnuvikuna, hækka eftirlaunaaldur og afnema auðlegðarskatt.

Juppe, sem einnig hefur gegnt embætti forsætisráðherra, var upphaflega talinn líklegri til að verða valinn forsetaframbjóðandi flokksins, en Fillon reyndist mun sterkari í kappræðum frambjóðendanna vegna forkosninganna.

Francois Fillon hefur lagt til umfangsmiklar breytingar á efnahagsstefnu Frakklands.
Francois Fillon hefur lagt til umfangsmiklar breytingar á efnahagsstefnu Frakklands. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert