Handtóku fjóra í tengslum við vígasamtök

AFP

Spænska lögreglan hefur handtekið fjóra menn sem grunaðir eru um aðild að glæpahring sem vígasamtökin Ríki íslams hafa nýtt sér til þess að koma hryðjuverkamönnum til Evrópu. Má þar nefna þá sem tóku þátt í árásunum í París í fyrra.

Lögreglan telur að mennirnir hafi meðal annars verið í sambandi við annan af liðsmönnum Ríkis íslams sem voru handteknir í Salsburg í Austurríki skömmu eftir árásirnar í París.

Austurríska lögreglan handtók Alsírbúann Adel Haddadi og Pakistanann Mohamad Usman, 10. desember í fyrra í flóttamannamiðstöð í Salzbrug en þeir eru grunaðir um aðild að hryðjuverkahópnum sem framdi fjöldamorðin í París.

Rannsóknarlögreglan telur að Haddadi og Usman hafi komið til grísku eyjunnar Lesbos 3. október á sama báti og tveir menn sem eru taldir vera Írakar sem sprengdu sig upp fyrir utan þjóðarleikvang Frakka í París, Stade de France.

En Haddadi og Usman voru í haldi grísku lögreglunnar í 25 daga þar sem þeir voru með fölsuð sýrlensk vegabréf. Þegar þeir voru látnir lausir fóru þeir hefðbundna leið flóttafólks til Salzburg í lok nóvember. 

Fjórmenningarnir sem voru handteknir á Spáni í dag eru grunaðir um að hafa skipulagt ferðalag Haddadi og Usmans til Evrópu, að sögn innanríkisráðherra Spánar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert