Bauð Romney á Jean-Georges

Mitt Romney var sæll og glaður eftir kvöldverðinn á Michelin-staðnum …
Mitt Romney var sæll og glaður eftir kvöldverðinn á Michelin-staðnum í gærkvöldi. AFP

Donald Trump, nýkjörinn forseti Bandaríkjanna, borðaði með repúblikananum Mitt Romney á einum af flottustu veitingastöðum New York-borgar í gærkvöldi. Talið er mjög líklegt að Romney, sem áður gagnrýndi Trump harðlega, verði næsti utanríkisráðherra Bandaríkjanna.

Tvímenningarnir snæddu á Jean-Georges, stað sem státar af þremur Michelin-stjörnum, þar sem franski matreiðslumaðurinn  Jean-Georges Vongerichten ræður ríkjum. Útsýnið er ekki af verri endanum – Central Park blasir við og er staðurinn afar vinsæll meðal ríka fólksins í New York. Ekki spillir fyrir að staðurinn er til húsa í Trump-turninum. Þykir þetta vísbending um að Romney verði næsti utanríkisráðherra í ríkisstjórn Trumps.

Romney hrósaði Trump við blaðamenn eftir málsverðinn og átti vart orð til að lýsa hrifningu sinni á Trump. Þeir hafi átt dásamlegt kvöld saman. „Ég tel að þið munið sjá Bandaríkin áfram í forystuhlutverki,“ sagði Romney við fjölmiðlafólk og að hann hafi aukna trú á því að Trump sé rétti maðurinn til þess að leiða þjóð sína í átt að betri framtíð.

Vefur Jean-Georges fyrir áhugasama 

Donald Trump og Mitt Romney.
Donald Trump og Mitt Romney. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert