„Tímabært að konur fái að keyra“

Sádí-arabískar konur í höfuðborginni Riyadh. Konur í landinu njóta minni …
Sádí-arabískar konur í höfuðborginni Riyadh. Konur í landinu njóta minni réttinda en víðast hvar annars staðar í heiminum og er Sádí-Arabía m.a. eina landið þar sem konum er bannað að keyra. AFP

Einn meðlima sádí-arabísku konungsfjölskyldunnar telur brýnt að afnema þau lög ríkisins sem banna konum að keyra. Prinsinn, sem er vellauðugur, þykir óvenju opinskár í afstöðu sinni  er hann segir það vera efnahagslega nauðsyn og kvenréttindi að lögin verði afnumin.  

„Hættum umræðunni: Það er tímabært að konur fái að keyra,“ sagði prinsinn Alwaleed bin Talal í Twitter-skilaboðum sínum.

Alwaleed þykir opinskár í samanburði við aðra meðlimi sádí konungsfjölskyldunnar. Hann gegnir engum pólitískum stöðum, en er stjórnarformaður fyrirtækisins Kingdom Holding Co., sem á hlut í fyrirtækjum á borð við Citigroup bankann og Euro Disney skemmtigarðinum.

Hann hefur lengi barist fyrir auknum réttindum kvenna í Sádí-Arabíu, en kvenréttindi í landinu eru með þeim minnstu um heim allan og er Sádí-Arabía m.a. eina landið í heiminum þar sem konum er bannað að keyra.

Prinsinn sendi einnig frá sér yfirlýsingu um málið, þar sem hann líkti ökubanninu við eldi bönn þar sem konum var bannað að sækja sér menntun. „Þetta eru óréttlát lög hefðbundins þjóðfélags, lög sem eru mun meira hamlandi en þær hindranir sem trúarbrögðum er lagalega heimilt að setja,“ sagði í yfirlýsingunni.

Hann ræddi því næst kostnaðinn við að konur yrðu að reiða sig á einkabílstjóra eða leigubíla þar sem almenningssamgöngur þykja ekki raunhæfur kostur í Sádí-Arabíu. Milljarðar dollara færu úr landi fyrir tilstilli erlendra bílstjóra og ættu karlar að taka sér tíma frá vinnu til að aka eiginkonum sínum eða dætrum þá væri það ekki síður kostnaðarsamt.

Það var í desember í fyrra sem konur gátu í fyrsta skipti kosið í sveitastjórnarkosningum í landinu, en þeirri ákvörðun var lengi vel mótmælt af „vissum öflum“ í landinu að því er segir í frétt AFP-fréttastofunnar. Ákvörðunin fékkst þó samþykkt og hvetur Alwaleed nú til að gripið verði til samskonar aðgerða varðandi ökuréttindi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert