Góðvild í garð óvinarins borgar sig

Braggarnir rétt við þorpið Comri í Skotlandi.
Braggarnir rétt við þorpið Comri í Skotlandi. Ljósmynd/TripAdvisor

Heinrich Steinmeyer, sem var liðsmaður SS-sveitar Hitlers í seinni heimsstyrjöldinni, ánafnaði litlu þorpi í Skotlandi allar eigur sínar við andlát sitt. Gjöfin er þakklætisvottur til íbúa bæjarins Comrie í skosku hálöndunum en þeir sýndu honum einstaka góðvild þegar honum var haldið föngnum í bröggum skammt frá þorpinu.

Steinmeyer var 19 ára gamall þegar hann var tekinn höndum í Frakklandi og fluttur til Skotlands undir lok seinni heimsstyrjaldarinnar. Börn og unglingar í bænum vinguðust við Steinmeyer. Þegar þau komust að því að hann hefði aldrei séð bíómynd um ævina gerðu þau sér lítið fyrir og smygluðu honum út úr herbúðunum og buðu honum í bíó. 

Steinmeyer varð ævinlega þakklátur fyrir þessa óvæntu góðmennsku sem honum var sýnd. Eftir stríðið vann hann um skeið í bænum. Hann heimsótti þorpið oft og eignaðist þar vini fyrir lífstíð. 

Upphæðin sem Steinmeyer ánafnaði nemur tæpum 55 milljónum íslenskra króna sem eldri borgarar sem búa á elliheimili þorpsins munu nýta sér. Nokkur ár hefur tekið að ganga frá arfinum en hann lést árið 2013, þá níræður að aldri. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert