Sýrlandsher sækir enn áfram

Kefa Jawish tekur mynd af heimili sínu í Haydraya-hverfinu í …
Kefa Jawish tekur mynd af heimili sínu í Haydraya-hverfinu í Aleppo. Þangað hefur hún ekki komið í fjögur ár eða síðan stjórn Sýrlands missti yfirráðin í hverfinu í hendur stjórnarandstæðinga. AFP

Sýrlenski stjórnarherinn og bandamenn hans hafa náð yfirráðum í enn einu hverfinu í austurhluta Aleppo í nótt. Stjórnvöld í Sýrlandi ráða nú yfir tveimur þriðju hlutum borgarinnar.

Samkvæmt upplýsingum frá Syrian Observatory for Human Rights náði stjórnarherinn Qadi Askar-hverfinu á sitt vald í nótt en áður hafði hann náð yfirráðum yfir Karm al-Myessar, Karm al-Qatarji og Karm al-Tahan, í austurhluta Aleppo en sá hluti borgarinnar var undir yfirráðum stjórnarandstæðinga.

Stjórnarherinn hefur sótt hart fram í Shaar-hverfinu og þykir líklegt að stjórnarandstæðingar missi fljótlega yfirhöndina þar. Ef herinn nær Shaar á sitt vald verða 70% af Austur-Aleppo komin aftur undir stjórn forseta landsins eftir fjögurra ára valdatíð stjórnarandstæðinga.

Framkvæmdastjóri Observatory, Rami Abdel Rahman, segir að hundruð almennra borgara hafi flúið úr hverfinu í nótt. Áætlað er að 50 þúsund manns hið minnsta hafi yfirgefið heimili sín í austurhluta Aleppo undanfarna viku. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert