Talið að Valls láti af embætti í dag

Manuel Valls, forsætisráðherra Frakklands, ætlar að gefa kost á sér …
Manuel Valls, forsætisráðherra Frakklands, ætlar að gefa kost á sér í forsetaembættið. AFP

Búist er við að Manuel Valls, forsætisráðherra Frakklands, láti af embætti í dag svo hann geti tekið af fullum krafti þátt í vali Sósíalistaflokksins á forsetaframbjóðanda flokksins.

Valls, sem hefur verið forsætisráðherra sl. tvö og hálft ár,  tilkynnti í gær að hann gæfi kost á sér sem forsetaefni flokksins. Kvaðst hann með því vilja gera sitt til að reyna að sameina sundraða vinstrimenn áður en forkosningar flokksins fara fram í janúar.

Marisol Touraine heilbrigðisráðherra og innanríkisráðherrann, Bernard Cazeneuve, hafa verið nefnd sem líklegir eftirmenn Valls á stóli forsætisráðherra.

Í kraftmikilli ræðu, sem hann hélt þegar hann tilkynnti framboð sitt, hét Valls því að taka slaginn við bæði íhaldsmenn í franska Repúblikanaflokkinum, sem nú eru í stjórnarandstöðu, og Þjóðfylkinguna (Front National) sem skoðanakannanir í dag sýna hafa meira fylgi en Sósíalistaflokkurinn.

Valls tilkynnti framboð sitt fjórum dögum eftir að Francois Hollande, forseti landsins og flokksbróðir Valls, tilkynnti að hann myndi ekki gefa kost á sér aftur.

„Framboð mitt er sáttaframboð,“ sagði Valls sem hefur verið umdeildur í embætti forsætisráðherra.

Hann varaði síðan við hættunni sem stafaði af Marine Le Pen, formanni Þjóðfylkingarinnar. Þjóðernisstefna Le Pen myndi „eyðileggja hinar vinnandi stéttir,“ sagði Valls.

Síðustu skoðanakannanir benda til þess að ef kosið væri nú myndi Marine Le Pen verða í fyrsta eða öðru sæti í fyrri umferð forsetakosninganna, en að hún  myndi síðan tapa fyrir Francois Fillon, frambjóðanda Repúblikana, í seinni umferð kosninganna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert