Giftist karlmanni til að halda kærustunni

AFP

Kínversk kona greip til þess ráðs að giftast karlmanni til þess að geta áfram verið með kærustunni sinni. Konan er samkynhneigð en hafði ekki greint foreldrum sínum frá því. Einkum vegna þess að umburðarlyndi gagnvart samkynhneigð á enn nokkuð í land í Kína. Þeir þrýstu mikið á hana að fara að festa ráð sitt þar sem hún væri komin á fertugsaldurinn.

Fram kemur á fréttavef BBC að konan hefði búið hamingjusöm með kærustu sinni um árabil í Beijing, höfuðborg Kína, en foreldrar hennar bjuggu í hafnarborginni Dalian. Staðan varð enn verri eftir að faðir hennar lést og móðir hennar fór að heimsækja hana reglulega í mánuð í senn vegna áhyggja af því að dóttirin yrði einhleyp það sem eftir væri. 

Konan leitaði til vina sinna sem ráðlögðu henni að giftast karlmanni til málamynda sem hún gerði 2012. Maðurinn er sjálfur samkynhneigður og var í sömu stöðu gagnvart eigin foreldrum. Hafði búið lengi með kærastanum sínum en ekki gert sambandið opinbert. Móðir konunnar var mjög ánægð með ráðahaginn enn þau fá enn spurningar um barneignir.

Konan komst í framhaldinu að því að mörg samkynhneigð pör væru í sömu stöðu og stofnaði í kjölfarið þjónustu á netinu til þess að aðstoða þau. Haft er eftir konunni að nú sé hún að vinna í því að finna eiginmann fyrir kærustuna. Foreldrar hennar vissu að hún væri samkynhneigð en þeir óttuðust hins vegar að ættingjar þeirra kæmust að því.

Haft er eftir konunni að hún geri sér grein fyrir að aðeins sé tímaspursmál hvenær móðir hennar og ættingjar komist að því hver kynhneigð hennar er en hún vonist til þess að þá verði kínverskt samfélag orðið umburðarlyndara gagnvart samkynhneigðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert