Frjálslynd þjónusta í íhaldssömu umhverfi

A.T. ræðir við Miroslav Djordjevic, sem framkvæmir samtals um 120 …
A.T. ræðir við Miroslav Djordjevic, sem framkvæmir samtals um 120 kynleiðréttingaraðgerðir á ári. AFP

Fyrir 14 árum hóf ítalskur transmaður kynleiðréttingarferlið og heimsótti Bretland, Þýskaland og Belgíu í leitinni að heilbrigðisstofnuninni til að gangast undir aðgerð. Á endanum valdi hinn 38 svæfingalæknir Center for Genital Reconstructive Surgery í Belgrad, sem nýtur töluverðra vinsælda meðal transfólks, þrátt fyrir andstöðu heimamanna gegn hinsegin fólki.

Fólk hvaðanæva sækir nú til Serbíu til að gangast undir kynleiðréttingaraðgerð. Það kann að þykja skjóta skökku við, þar sem Gay Pride-göngur í Belgrad krefjast mikillar öryggisgæslu og næstum helmingur íbúa telur samkynhneigð vera sjúkdóm.

Belgrad hefur hins vegar upp á að bjóða mikla sérþekkingu fyrir brot þess verðs sem heimt er fyrir aðgerðirnar annars staðar í Evrópu og í Bandaríkjunum.

„Ég lagðist í mikla rannsóknarvinnu og setti mig í samband við margar miðstöðvar og komst að því að næstum allir voru nemendur Djordjevic, þannig að ég vildi sækja í uppsprettu alls þessa fróðleiks,“ segir transmaðurinn ítalski, sem kýs að láta kalla sig A.T.

Miroslav Djordjevic er yfirlæknir fyrrnefndrar miðstöðvar í Belgrad og prófessor í þvagfærafræði og skurðlækningum. Hann framkvæmir um 100 kynleiðréttingaraðgerðir á ári á sjúklingum frá löndum á borð við Bandaríkin, Ástralíu, Japan, Suður-Afríku og Brasilíu og um 20 á sjúklingum frá ríkjum fyrrum Júgóslavíu.

85% sjúklinganna eru transmenn, en aðgerðirnar á þeim þykja flóknari en aðgerðirnar sem framkvæmdar eru á transkonum.

Fyrir A.T. snerist leitin að „rétta“ staðnum til að gangast …
Fyrir A.T. snerist leitin að „rétta“ staðnum til að gangast undir aðgerðina ekki bara að kostnaðarhliðinni, heldur einnig því að því að finna hæfasta lækninn. AFP

Júgóslavneskir frumkvöðlar

Menn ferðast öllu jöfnu ekki til Serbíu til að sækja almenna læknisþjónustu, utan tannlækninga. Djordjevic, 51 árs, nefnir gallsteinaaðgerðir sem dæmi, en þær eru fimm sinnum ódýrari í Serbíu en Þýskalandi. „En enginn kemur hingað í gallsteinameðferð,“ segir hann.

Djordjevic segir fólk hins vegar sækja þjónustu miðstöðvar hans þar sem hún sé ein af færri en 20 í heiminum sem bjóða upp á heildstæða þjónustu fyrir transmenn. Allt er klárað í einni aðgerð.

„Við framkvæmum, á sama tíma, fjarlægingu brjóstanna, fjarlægingu innri kvenlíffæranna og síðan ljúkum við aðgerðinni með sköpun nýs getnaðarlims,“ útskýrir Djordjevic.

Sérhæfing í aðgerðum af þessu tagi hófst í Serbíu á 9. áratug síðustu aldar, undir Sava Perovic, læriföður Djordjevic, sem var frumkvöðull á sínu sviði. Önnur miðstöð í Belgrad, sem nefnd er í höfuðið á Perovic, sérhæfir sig einnig í aðgerðum á transmönnum.

Djordjevic hafnar því að vinsældir Serbíu þegar kemur að kynleiðréttingaraðgerðum ráðist eingöngu af viðráðanlegu verði, þrátt fyrir að A.T. hafi til að mynda greitt 1,7 milljónir fyrir aðgerð í Belgrad sem hefði kostað 7 milljónir í Bretlandi.

Að sögn transmannsins ítalska hefði hann getað gengist undir aðgerðina á Ítalíu sér að kostnaðarlausu, en hann sagðist ekki hafa treyst því að ítalskir skurðlæknar hefðu nægilega þekkingu til verksins.

David Ralph, þvagfæralæknir og sérfræðingur í uppbyggingu getnaðarlima, segir lágt verð í Serbíu frekar mega rekja til lágs sjúkrahúskostnaðar frekar en lítils kostnaðar við skurðaðgerðirnar sjálfar.

„Á endanum fá sjúklingarnir sömu þjónustu,“ sagði hann í samtali við AFP. Ralph sagðist þó sjálfur vilja skipta ferlinu upp í nokkrar minni aðgerðir. Forsendur aðgerðanna eru hins vegar áþekkar; ítarlegt sálfræðilegt mat og hormónameðferð.

Nær helmingur Serba telur samkynhneigð sjúkdóm sem þarfnast meðferðar.
Nær helmingur Serba telur samkynhneigð sjúkdóm sem þarfnast meðferðar. AFP

Ofbeldi og höfnun

Líkt og áður segir virðist þessi heilbrigðistúrismi fara illa saman við afstöðu Serba til hinsegin fólks. Í Gay Pride-göngunni sem fram fór í Belgrad árið 2010 réðust róttækir þjóðernissinar á þátttakendur og lögreglu. 150 særðust og gangan var bönnuð næstu þrjú ár.

Nú fer gangan fram undir vökulu eftirliti þúsunda óeirðalögreglumanna.

Samkvæmt könnun á mismununum, sem var framkvæmd árið 2013 með stuðningi Sameinuðu þjóðanna, telja 49% Serba að samkynhneigð sé sjúkdómur sem krefjist meðhöndlunar.

Transfólk verður fyrir enn meira aðkasti en samkynhneigðir og upplifa ofbeldi og höfnun frá unga aldri, að sögn aðgerðasinnans Milan Djuric. Hann gengur einnig undir nafninu Agatha og starfar fyrir samtökin Gayten-LGBT.

Í fyrra var ráðist á par í suðurhluta Serbíu þar sem annað þeirra var trans og þá var ráðist á transkonu í strætisvagni í Belgrad, svo dæmi séu nefnd.

Það þótti marka tímamót þegar stjórnvöld samþykktu árið 2012 að standa undir tveimur þriðju hlutum kostnaðarins við kynleiðréttingaraðgerðir eigin ríkisborgara.

„En það leysir ekki fjölmörg önnur vandamál,“ segir Djuric. Hann berst m.a. fyrir lagasetningu sem myndi gera transfólki auðveldara að fá í gegn breytingar á opinberum gögnum á borð við persónuskilríki.

Hinn ítalski A.T. sagði að sér hefði ekki verið kunnugt um hina miklu fordóma gegn hinsegin fólki í Serbíu. Hann sagðist hins vegar ánægður með að hafa fundið stað til að gangast undir aðgerðina með góðu árangri.

„Það er afslappandi að vera loks við endalok umbreytingarinnar,“ segir hann.

A.T. nokkrum dögum eftir aðgerðina.
A.T. nokkrum dögum eftir aðgerðina. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert