Fundu áður óþekkta borg í Grikklandi

Borgarmúrar, turnar og borgarhliðin sjást vel úr lofti.
Borgarmúrar, turnar og borgarhliðin sjást vel úr lofti. Ljósmynd/SIA/EFAK/YPPOA

Sænskri fornleifafræðingar fundu nú í haust áður óþekkta borg í Grikklandi. Fornleifafræðingarnir sem eru frá háskólanum í Gautaborg telja fornleifafundinn geta breytt sýn á svæði sem til þessa hefur verið talið hafa lítið menningarsögulegt gildi.

Borgin forna er í nágrenni þorpsins Vlochós, í miðhluta Grikklands og hafa fornleifarnar fundist á víð og dreif um hæðina Strongilovoúni og bendir aldursgreining til þess að fornleifarnar séu frá nokkrum tímabilum.

„Það sem áður voru taldar vera minjar ómerkilegra byggða reynast nú vera leifar borgar sem hefur mun meira gildi en áður var talið og þetta er eftir aðeins einn uppgröft á þessu svæði,“ er haft eftir Robin Rönnlund, doktorsnema í fornleifafræðum við Gautaborgarháskóla sem fer fyrir uppgreftrinum, í fréttatilkynningu frá Gautaborgarháskóla.

„Ég og einn kollega minna uppgötvuðum þetta svæði í tengslum við annað verkefni í fyrra og áttuðum okkur strax á möguleikunum. Að enginn hafi skoðað þessa hæð áður er algjör ráðgáta.“

Hafist var handa við uppgröftinn í september nú í haust og segir Rönnlund hæðina eiga sér mörg leyndarmál. Þar sé m.a. að finna leifar hárra turna, borgarmúra og borgarhliða sem finnist uppi á hæðinni, á meðan að varla nokkuð sé sýnilegt neðar í hlíðunum.

Hugmyndir eru uppi um að nýta radartækni til að kanna hæðina og gera fornleifafræðingum þannig kleift að skoða svæðið án þess að raska því. Þessi tækni þykist hafa gefist vel við fyrsta hluta uppgraftarins, að því er segir í fréttatilkynningunni.

„Við fundum bæjartorg og gatnakerfi sem gefur til kynna að þetta sé töluvert stór borg. Svæðið innan borgarmúranna er yfir 40 hektarar. Við höfum líka fundið forn leirbrot og myntir sem má nota til að aldursgreina borgina. Elstu munirnir sem við höfum fundið eru frá því í kringum 500 f.Kr.. Borgin virðist hafa átt sinn blómatíma á þriðju og fjórðu öld fyrir Krist, áður en hún var yfirgefin af óþekktum ástæðum en sem mögulega tengjast komu Rómverja,“ sagði Rönnlund sem telur uppgröftinn geta veitt mikilvægar upplýsingar um hvað hafi gerst á þessu stormasama tímabili í sögu Grikklands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert