Kennir Pútín og FBI um ósigurinn

New York Times segir Hillary Clinton hafa kennt FBI og …
New York Times segir Hillary Clinton hafa kennt FBI og Pútín um ósigurinn á fundi með bakhjörlum sínum í gær. AFP

Hillary Clinton er sögð kenna Vladimír Pútín Rússlandsforseta og yfirmanni alríkislögreglunnar FBI um tapið gegn Donald Trump í forsetakosningunum í síðasta mánuði. Clinton hlaut afgerandi fleiri atkvæði á landsvísu en tapaði slagnum um kjörmennina sem kjósa forsetann.

Clinton hefur haldið sig til hlés frá því að hún tapaði kosningunum óvænt en New York Times segir að hún hafi kennt FBI og Pútín um hvernig fór á fundi með styrktaraðilum framboðs hennar í New York í gær. Hún teldi að bréf sem James Comey, repúblikaninn sem er yfirmaður FBI, sendi Bandaríkjaþingi aðeins tíu dögum fyrir kjördag um að FBI hefði aftur hafið rannsókn á tölvupóstum Clinton þegar hún var utanríkisráðherra hefði kostað hana sigur í lykilríkjum þar sem Trump fór með sigur af hólmi og mjótt var á mununum.

FBI taldi á endanum ekki ástæða til frekar aðgerða hvað Clinton varðaði.

„Kjósendur í lykilríkjum tóku ákvörðun um að yfirgefa mig á síðustu dögunum vegna bréfs FBI frá Comey yfirmanni,“ hefur New York Times eftir Clinton.

FBI skildi aðeins eftir skilaboð á símsvara demókrata

Þá hélt hún því fram að innbrotið í tölvupóstþjón landsnefndar Demókrataflokksins og birting á tölvupóstum kosningastjóra hennar John Podesta ætti sér skýringar í persónulegri óvild Pútíns í garð hennar vegna þess að hún hafi sem utanríkisráðherra fullyrt að brögð hefðu verið í tafli í forsetakosningunum í Rússlandi árið 2011. 

„Pútín kenndi mér opinberlega um hneykslan hans eigin þjóðar og það er bein tenging á milli þess sem hann sagði þá og þess sem hann gerði fyrir þessar kosningar,“ á Clinton að hafa sagt bakhjörlum sínum.

Dagblaðið sagði frá því fyrr í vikunni að þegar FBI komst á snoðir um tölvuinnbrotið hjá demókrötum hafi fulltrúar hennar aðeins skilið eftir skilaboð á símsvara á þjónustuborði landsnefndarinnar. Alríkislögreglan hefði ekki varað fulltrúa flokksins beint við eða hitt þá í persónu. Podesta skrifaði sjálfur harðorða grein í Washington Post í vikunni þar sem hann gagnrýndi mistök FBI við rannsókn innbrotsins.

Clinton hlaut 2,8 milljónum atkvæða fleira en Trump á landsvísu en frambjóðandi repúblikana vann hins vegar 306 kjörmenn á móti 232 kjörmönnum Clinton. Ein stærsti þátturinn í sigri Trumps var árangur hans í Wisconsin, Michigan og Pennsylvaníu. Hann hafði sigur í þeim öllum en aðeins með samtals um hundrað þúsund atkvæðum.

Framboð Clinton hefur sætt harðri gagnrýni fyrir að hafa vanrækt þessi ríki í kosningabaráttunni og hvítu verkamannastéttina sem kaus Trump á endanum í embætti forseta. Þannig heimsótti Clinton Wisconsin aldrei eftir að hún var orðinn forsetaefni demókrata og fór aðeins til Michigan eftir að skoðanakannanir bentu til þess að mjótt væri orðið á mununum þar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert