Hafnar gagnkvæmum aðgerðum

Vladimír Pútín og Barack Obama.
Vladimír Pútín og Barack Obama. AFP

Vladimír Pútín, forseti Rússlands, hefur hafnað tillögu utanríkisráðuneytisins um að vísa 35 bandarískum sendifulltrúum úr landi til að svara refsiaðgerðum bandarískra stjórnvalda. Rússnesk stjórnvöld muni líta til stefnu stjórnar Donalds Trump til að bæta samskipti landanna tveggja.

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, lagði í morgun til að Pútín ræki sendifulltrúana úr landi og lokaði húsum sem bandaríska sendiráðið í Moskvu hefur notað fyrir orlof og vörugeymslu eftir að Barack Obama forseti Bandaríkjanna tilkynnti um svipaðar aðgerðir gegn Rússum vegna afskipta þerra af forsetakosningunum.

Frétt Mbl.is: Rússar svara í sömu mynt

Þessu hafnaði Pútín hins vegar með yfirlýsingu sem hann sendi frá sér. Þar sagðist hann ekki ætla að taka þátt í slíkum hráskinnaleik þó að rússnesk stjórnvöld áskildu sér rétt til að grípa til aðgerða til að svara fyrir sig. Hann vildi ennfremur ekki svipta börn bandarískra sendifulltrúa afþreyingarsvæði í Moskvu sem Lavrov vildi láta loka. Bauð hann börnum allra bandarískra sendifulltrúa í Rússlandi að taka þátt í nýárs- og jólafögnuði rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar í Kreml.

Pútín sagði óheppilegt að Obama hafi kosið að binda enda á samskipti sín við Rússa með þessum hætti en sendi honum, fjölskyldu hans og bandarísku þjóðinni nýárskveðjur, samkvæmt frétt New York Times.

Frétt Mbl.is: Ráku 35 Rússa úr landi

„Í framtíðarskrefum okkar í átt að endurreisn samskipta Bandaríkjanna og Rússlands göngum við út frá stefnu stjórnar D. Trump,“ sagði í yfirlýsingu Pútín.

Obama vísaði 35 rússneskum leyniþjónustumönnum úr landi í gær til að refsa rússneskum stjórnvöldum fyrir tölvuárásir í aðdraganda forsetakosninganna vestanhafs sem bandarískar leyniþjónustustofnanir fullyrða að þau standi að baki.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert