Páfinn fordæmir árásina

Frans páfi, Angela Merkel og Vladimir Pútín eru meðal þeirra sem hafa tjáð sig um skotárásina sem gerð var á vinsælum skemmtistað í Istanbúl í nótt og kostaði 39 manns lífið. Í dag hafa leiðtogar heimsins hver á fætur öðrum fordæmt árásina.

Í nýársávarpi sínu hvetur Frans páfi leiðtoga heims til að vinna saman í baráttunni gegn „hryðjuverkaplágunni“ um leið og hann fordæmdi árásina. Páfinn flutti ávarp sitt venju samkvæmt á Péturstorginu í Vatíkaninu í dag þar sem saman voru komnir um 50 þúsund manns til að hlýða á orð páfa sem vék frá undirbúinni ræðu sinni til að fordæma árásirnar. 

„Því miður hafa ofbeldisverk verið framin, meira að segja á þessu kvöldi vonar og drauma. Með sársauka í hjarta lýsi ég samkennd minni með tyrknesku þjóðinni. Ég mun biðja fyrir þeim mörgu fórnarlömbum, þeim særðu og öllum þjóðum þar er ríkir stríð,“ sagði páfinn.

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, segir árásina vera „ómanneskjulega, óvænta árás á fólk sem vildi fagna.“ Þá hefur Pútín Rússlandsforseti sagt erfitt að hugsa sér tortryggilegri glæp en þann að drepa saklausa borgara meðan það fagnar nýju ári.     

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert