Sagður hafa barist fyrir Ríki íslams í Sýrlandi

Fjöldi fólks hefur komið með blóm og lagt utan við …
Fjöldi fólks hefur komið með blóm og lagt utan við næturklúbbinn til að minnast þeirra sem voru drepnir. AFP

Árásarmaðurinn, sem varð 39 manns að bana í Reina-næturklúbbinum í Istanbúl á gamlárskvöld, hafði barist fyrir hryðjuverkasamtökin Ríki íslams í Sýrlandi. Tyrkneska dagblaðið Hurriyet fullyrðir að árásarmaðurinn hafi við árásina á Reina nýtt sér tækni sem hann hafði lært í stríðinu í Sýrlandi. Blaðið segir árásina bera öll merki þess að hún hafi verið framin af einstaklingi sem kunni vel með vopn að fara.

Ríki íslams lýsti í gær yfir ábyrgð á tilræðinu, og er það í fyrsta skipti sem samtökin lýsa yfir ábyrgð á verulega mannskæðri árás í Tyrklandi. Árásarmannsins er enn leitað, en hann skaut um 120 skotum úr Kalashnikov-hríðskotabyssu og olli miklu manntjóni og ofsahræðslu á næturklúbbinum áður en hann lét sig hverfa út í nóttina.

Búið að bera kennsl á árásarmanninn

Abdulkadir Selvi, dálkahöfundur Hurriyet, sem er vel tengdur inn í tyrknesku lögregluna, sagði rannsakendur vera búna að bera kennsl á árásarmanninn og að talið væri að hann hefði komið frá Mið-Asíu.

Er hann sagður hafa hlotið þjálfun í götubardögum á íbúasvæðum í Sýrlandi og að hann hafi beitt þeirri tækni í árásinni, frekar en að skjóta frá miðjum skrokknum líkt og leyniskytta myndi gera. Fullyrðir blaðið enn fremur að hann hafi verið „sérvalinn“ til að framkvæma árásina.

Numan Kurtulmus, aðstoðarforætisráðherra Tyrklands, greindi frá því í gær að lögregla væri búin að finna fingraför árásarmannsins og að hún vonaðist til að bera fljótt kennsl á hann.

Ætluðu einnig að gera árás í Ankara

Hurriyet sagði forgangsmál lögreglu nú að hafa uppi á árásarmanninum og hópnum sem stæði á bak við hann. Sagði hann Ríki íslams einnig hafa skipulagt árás í Ankara, höfuðborg Tyrklands, að kvöldi nýársdag en að handtaka 8 liðsmanna samtakanna í borginni hefði komið í veg fyrir að af henni yrði.

Dagblaðið HaberTurk segir árásarmanninn þá hafa komið frá borginni Konya, í Suður-Tyrklandi, til Istanbúl ásamt konu og tveimur börnum „til að vekja ekki athygli“.

Tyrkneska lögreglan birti þessa myndí gær af manninum sem grunaður …
Tyrkneska lögreglan birti þessa myndí gær af manninum sem grunaður er um árásina á næturklúbbinn. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert