Bannar mynd af 16. aldar styttu

Styttan stendur á Torgi Neptúnusar.
Styttan stendur á Torgi Neptúnusar.

Facebook sætir nú gagnrýni eftir að hugbúnaður þess lokaði fyrir birtingu ljósmyndar af styttu í líki guðsins Neptúnusar, sem stendur á Neptúnusartorgi í ítölsku borginni Bologna. Í sjálfvirkum skilaboðum frá Facebook segir að myndefnið sé „kynferðislega djarft“.

Rithöfundurinn Elisa Barbari hafði valið styttuna, sem sýnir Neptúnus nakinn og með þrífork í hendi, til að skreyta Facebook-síðu sína um sögur, furðuverk og annað sem hægt er að berja augum í Bologna.

Styttan er frá 16. öld, en mynd af henni þykir þó brjóta í bága við stefnu samfélagsmiðilsins.

Í yfirlýsingu segir Facebook við Barbari: „Notkun myndarinnar var ekki leyfð þar sem hún braut viðmiðunarreglur Facebook um auglýsingar. Myndefni hennar er kynferðislega djarft, sýnir óhóflega mikið af líkama og beinist óþarflega að líkamshlutum.“

Fjallað er um málið á vef The Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert