Bakkaði aftur yfir fólkið

Minnst fjórir eru látnir eftir hryðuverkaárás í Jerúsalem í dag …
Minnst fjórir eru látnir eftir hryðuverkaárás í Jerúsalem í dag þegar ökumaður vöruflutningabíls ók á hóp hermanna á vinsælli göngugötu í borginni. AFP

Maðurinn sem ók vöruflutningabifreið á hóp fólks við vinsæla göngugötu í Jerúsalem í dag er sagður vera frá Palestínu. Samkvæmt yfirvöldum í Ísrael eru fjórir látnir og um 15 slasaðir.  

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, segir árásarmanninn hafa verið stuðningsmann hryðjuverkasamtakanna Ríki íslams. 

Frétt mbl.is: Árás í Jerúsalem

Mikið öngþveiti var á vettvangi í kjölfar árásarinnar þegar maðurinn ók bílnum á mannskapinn. Hundruð hermanna voru staddir í göngugötunni og voru þeir nýmættir á staðinn en þeir voru í skipulagðri dagsferð um sögulega staði borgarinnar. Frá göngugötunni er mikið útsýni yfir gamla borgarhluta Jerúsalem og gott útsýni yfir aðra helga staði í borginni. 

Palestínskir öryggisfulltrúar í borginni Ramallah á Vesturbakkanum segja ökumanninn vera Palestínumann rétt innan við þrítugt. Hann sé frá Jabal Mukaber-hverfinu í austurhluta Jerúsalem sem er skammt frá þar sem árásin varð.

Auk aðhlynningar við hina særðu hefur hermönnunum einnig verið veitt áfallahjálp á vettvangi.

AFP

Maðurinn einn að verki

„Hryðjuverkamaður sem var einn að verki ók vöruflutningabíl á hóp hermanna sem stóð við götuna,“ er haft eftir Micky Rosenfeld, talsmanni lögreglunnar í Jerúsalem. „Þeir fóru út úr rútunni og þegar þeir voru að fara út úr henni og gera sig tilbúna nýtti hann [árásarmaðurinn] tækifærið.“ Rosenfeld segir þó ekki ljóst að svo stöddu hvort árásin var skipulögð fyrir fram eða hafi verið framin í skyndi. 

Luba Samri, sem einnig er talskona lögreglunnar, segir að bílstjórinn hafi verið skotinn til bana af ísraelskum öflum, án þess að tilgreina hvort það var hermaður eða lögregla sem skaut. Á myndum af vettvangi má sjá hvernig margar byssukúlur hafa dunið á framrúðu vörubílsins. Aðeins hafa verið staðfest fjögur dauðsföll en heilbrigðisstarfsmaður á vettvangi segir hina látnu alla vera hermenn. 

AFP

Reyndi að bakka yfir þá slösuðu

BBC hefur eftir rútubílstjóra sem varð vitni að ódæðinu að bílstjórinn hafi ekið inn í hóp­inn og bakkað svo aft­ur yfir fórn­ar­lömb­in.

Myndband sem sagt er vera af árásinni og hefur verið dreift á netinu sýnir hvernig vöruflutningabifreið með krana ekur í gegnum þvögu hermanna sem standa við hlið rútunnar. Ökumaðurinn víkur þá til hliðar og reynir að bakka aftur í átt að hermönnunum sem höfðu orðið fyrir bílnum, áður en bíllinn loks stöðvar. 

Sjúkrabílar flykktust á vettvang og myndband sýnir vegfarendur, þar á meðal hermenn, hlaupa í skjól. „Ég heyrði hermenn öskra og kalla,“ segir Lea Schreiber, leiðsögumaður sem var staddur á svæðinu. „Ég sá vörubílinn sem keyrði til hliðar við veginn. Hermennirnir byrjuðu að skjóta [...] Það voru gefnar skipanir og öskur út um allt. Þeir sögðu þeim að fela sig fyrir aftan vegginn af ótta við aðra atlögu.“

Mikil skelfing greip um sig á vettvangi árásarinnar í Jerúsalem.
Mikil skelfing greip um sig á vettvangi árásarinnar í Jerúsalem. AFP

Staða Jerúsalem viðkvæm

Bylgja árása braust út í landinu í október 2015 en hafa átökin dvínað að undanförnu. Síðan þá hafa 247 Palestínumenn, 40 Ísraelar, tveir Bandaríkjamenn og einstaklingar frá Jórdaníu, Erítreu og Súdan verið drepnir í vopnuðum árásum samkvæmt tölum sem AFP hefur tekið saman.

Flestir Palestínumannanna eru sagðir hafa látist eftir að hafa sjálfir framið árásir, samkvæmt yfirvöldum í Ísrael. Aðrir hafi þá ýmist verið skotnir til bana í mótmælum eða öðrum átökum, og enn aðrir fallið í loftárásum á Gaza-ströndinni.

Baráttan um Jerúsalem er einn viðkvæmasti þátturinn í Ísrael-Palestínu-deilunni en Palestínumenn sjá austurhluta Jerúsalem sem höfuðborg sjálfstæðs ríkis Palestínu í framtíðinni. Ísraelar aftur á móti líta á alla borgina sem sína höfuðborg.

Uppfært kl. 15:40:

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, segir árásarmanninn hafa verið stuðningmann hryðjuverkasamtakanna Íslamska ríkisins. „Við þekkjum nú deili á árásarmanninum, allt bendir til þess að hann sé stuðningsmaður Íslamska ríkisins,“ er haft eftir Netanyahu í yfirlýsingu frá skrifstofu forsætisráðherra. Engar nánari upplýsingar hafa þó verið gefnar upp hvað þá uppgötvun varðar.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert