Lög Asimov til framkvæmdastjórnar ESB

Róbótin Jia Jia getur átt einfaldar samræður og sýnt svipbrigði …
Róbótin Jia Jia getur átt einfaldar samræður og sýnt svipbrigði þegar við á. AFP

Ef tillögur þingmanna Evrópuþingsins verða samþykktar verða framleiðendur róbóta skikkaðir til að búa þá „neyðarrofa“ til að koma í veg fyrir að þeir geti valdið ómældum skaða. Þá hefur komið til tals að krefjast þess að róbótarnir verði tryggðir og jafnvel skattskyldir.

Umræddar tillögur voru samþykktar af laganefnd Evrópuþingsins á fimmtudag. Þær verða nú teknar til umræðu hjá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins.

Mady Delvaux, höfundur tillaganna, segir nauðsynlegt að setja reglur til að tryggja að róbótar séu og verði áfram í þjónustu mannsins.

Meðal þess sem er lagt til er að sett verði viðmið um hönnun siðrænna og öruggra véla. Gerðar verði kröfur um neyðarrofa til að slökkva á vélunum í neyðartilvikum og þá sé tryggt að hægt sé að endurforrita þær ef þær virka ekki sem skyldi.

AFP

Delvaux leggur einnig til að fylgja skuli „lögum um róbóta“, sem eru hugarfóstur vísindaskáldsagnahöfundarins Isaac Asimov. Lög hans kveða á um að róbóti megi aldrei skaða eða drepa manneskju og verði alltaf að hlýða fyrirskipunum skapara síns. Þá ber róbótum að standa vörð um eigin tilvist, nema þegar það yrði til þess að skaða manneskju.

Enn fremur er kveðið á um í tillögunum að róbóti sé ekki og geti aldrei orðið manneskja. „Þú mátt aldrei fara að trúa því róbóti sé mennskur og að hann elski þig,“ segir Delvaux, sem vill koma í veg fyrir að mennirnir myndi tilfinningatengsl við vélarnar sem þeir skapa og nota.

Þá eru gerðar kröfur um að eigendur róbóta taki út tryggingar vegna þeirra og að eigendur róbóta í iðnaði verði látnir borga af þeim skatt, ef þeir koma til með að taka yfir störf sem mennirnir hafa sinnt hingað til.

Ítarlega frétt um málið má finna hjá BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert