Vara við „einhliða skrefum“

John Kerry ræðir við yfirmann utanríkismála í framkvæmdastjórn ESB, Federica …
John Kerry ræðir við yfirmann utanríkismála í framkvæmdastjórn ESB, Federica Mogherini, á ráðstefnunni í París. AFP

Þær þjóðir sem tóku þátt í fundi í París þar sem rætt var um friðarhorfur í Mið-Austurlöndum hafa varað Ísraela og Palestínumenn við því að taka „einhliða skref“ sem geti komið í veg fyrir að samningaleiðin yrði farin á milli landanna tveggja vegna sjö áratuga deilu þeirra.

Um sjötíu þjóðir tóku þátt í ráðstefnunni sem fór fram í París.

Bretar skrifuðu ekki undir yfirlýsinguna og sögðust hafa efasemdir um að fundurinn hafi verið haldinn án fulltrúa frá Ísrael og Palestínu „einungis nokkrum dögum áður en nýr Bandaríkjaforseti tekur við völdum“.

Í yfirlýsingunni kemur fram að friðarviðræður eigi að byggja á stöðunni eins og hún var árið 1967 áður en Ísraelar hertóku Vesturbakkann og austurhluta Jerúsalem.

Palestínumenn eru ánægðir með yfirlýsinguna og segja að hún „leggi áherslu á þörfina á því að binda enda á landtöku Ísraela,“ sagði framkvæmdastjóri Frelsissamtaka Palestínu, Saeb Erekat.

John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, var viðstaddur fundinn. Hann sagðist hafa samið um það á fundinum að komið yrði í veg fyrir að komið væri á ósanngjarnan hátt fram við Ísraela.

„Við gerðum það sem var nauðsynlegt til að ná lausn þar sem jafnvægi væri á milli beggja aðila,“ sagði Kerry.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert