Girða landamærin að Rússlandi

google
google google

Stjórnvöld í Litháen ætla að nota fjármagn frá Evrópusambandinu til þess að byggja girðingu á á landamærum landsins að rússneska landssvæðinu Kaliningrad, sem er aðskilið frá meginhluta Rússlands, til þess að sporna við smygli og auka öryggi landsins.

Rússar reka öfluga herstöð í Kaliningrad og hefur mikil hernaðaruppbygging átt sér stað á svæðinu, sem er á milli Póllands og Litháens sem bæði eru í Evrópusambandinu og Atlantshafsbandalaginu (NATO), á undanförnum árum samkvæmt frétt AFP. 

Fyrirhuguð girðing verður 130 kílómetra löng og er gert ráð fyrir að framkvæmdir hefjist næsta vor og að þeim verði lokið fyrir lok þessa árs. 

„Tilgangurinn er bæði efnahagslegur með það fyrir augum að koma í veg fyrir smygl og geopólitískur með það í huga að styrkja ytri landamæri Evrópusambandsins,“ er haft eftir Eimutis Misiunas, innanríkisráðherra Litháens.

Girðingunni er ætlað að verða tveggja metra há og er kostnaður áætlaður um 30 milljónir evra eða sem nemur rúmum 3,6 milljörðum króna. Framkvæmdin verður að mestu fjármögnuð af Evrópusambandinu.

„Þetta mun ekki stöðva skriðdreka en það verður erfitt að klifra yfir hana.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert