Voru í fasta svefni er vélin hrapaði

Hús og bílar eyðilögðust er tyrknesk fraktflugvél hrapaði í þorpi í Kirgistan í dag með þeim afleiðingum að 37 létust. Slysið átti sér stað um kl. 7.30 að morgni að staðartíma og því voru margir þorpsbúar enn sofandi í rúmum sínum. Börn eru meðal þeirra sem létust.

Flugmaður vélarinnar reyndi að lenda henni á aðalflugvelli landsins í mikilli þoku. Stjórnvöld í Kirgistan segja að mannleg mistök hans hafi orðið til þess að vélin hrapaði í íbúabyggð. 

Mikill eldur og reykur gaus upp af flaki vélarinnar og áttu björgunarmenn erfitt með að leita að fólki á lífi í rústunum í kring.

Fjórir flugmenn voru um borð í vélinni og létust þeir allir. Talið er að enn eigi fleiri lík eftir að finnast. 

„Barnabarnið okkar sagði að eitthvað væri að brenna,“ segir Tajikan, íbúi í þorpinu Dacha Suu við AFP-fréttastofuna. „Við heyrðum hávaða og þetta var eins og jarðskjálfti. Margir voru sofandi, allt umhverfis okkur var að brenna. Brak úr vélinni hrapaði á hús nágranna okkar. Hún og öll fjölskyldan hennar eru látin.“

Zumriyat Rezakhanova, annar þorpsbúi, segir að vélin hafi hrapað beint ofan á húsin þar sem íbúar voru sofandi. „Hús systur minnar skemmdist illa. Sem betur fer þá slapp hún og fjölskyldan á lífi.“

Vélin var á leiðinni frá Hong Kong til Istanbúl en átti að millilenda í Bishkek, höfuðborg Kirgistan.

 Búið er að finna einn flugrita vélarinnar. Ekki er enn ljóst hvort hann mun gefa upplýsingar um það sem olli slysinu.

Talsmenn ACT Airlines, sem átti vélina, segir að allir í fyrirtækinu séu mjög sorgmæddir vegna slyssins. Þeir segja að á þessari stundu sé ekki vitað  með vissu hvað olli slysinu.

Að minnsta kosti sautján hús gjöreyðilögðust er vélin hrapaði í þorpinu, skammt frá Manas-flugvellinum. Vellinum var lokað um tíma vegna slyssins en verður aftur opnaður í kvöld.

Björgunarlið á vettvangi slyssins í þorpinu í Kirgistan.
Björgunarlið á vettvangi slyssins í þorpinu í Kirgistan. AFP
Vélin eyðilagði að minnsta kosti sautján hús er hún hrapaði.
Vélin eyðilagði að minnsta kosti sautján hús er hún hrapaði. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert