Myrti unnustu sína og lögreglu

AFP

Lögregla í Flórída hefur handtekið mann sem er grunaður um að hafa myrt þungaða unnustu sína í desember og lögreglukonu sem reyndi að handtaka hann fyrr í mánuðinum.

„Við náðum honum!“ skrifar lögreglan í Orlando á Twitter en þar kemur fram að Markeith Loyd, 41 árs, væri í haldi lögreglu.

Loyd er grunaður um að hafa myrt unnustu sína,  Sade Dixon, í desember en hann hefur farið huldu höfði síðan þá. Fyrr í mánuðinum reyndi lögreglukonan Debra Clayton að handtaka hann í Walmart-verslun en þar hafði einhver bent Clayton á að það væri maður inni í versluninni sem minnti á Loyd en hann var eftirlýstur fyrir morðið á unnustu sinni. Loyd skaut Clayton til bana þegar hún reyndi að handtaka hann á bílastæði við verslunina. 

Einn lögreglumaður, Norman Lewis, lést í vélhjólaslysi nýverið þegar hann eltist við Loyd á flóttanum en mikill fjöldi lögreglumanna hefur leitað hans undanfarnar vikur. 

Loyd fannst í húsi sem staðið hefur autt og var hann með töluvert magn vopna og skotfæra á sér. Nokkrir hafa verið yfirheyrðir í tengslum við málið grunaðir um að hafa aðstoðað hann á flóttanum.

Markeith Loyd.
Markeith Loyd. Lögreglan í Orlando
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert