Hermenn Senegal fóru inn í Gambíu

Adama Barrow sór embættiseið í sendiráði Gambíu í Senegal.
Adama Barrow sór embættiseið í sendiráði Gambíu í Senegal. AFP

Hermenn frá Senegal fóru í dag yfir landamærin til Gambíu til að styðja við nýlega kjörinn forseta Gambíu. Er aðgerðin hluti af stuðningi annarra þjóða í Vestur-Afríku við nýja forsetann og á að tryggja að hann verði svarinn til embættis. Þá hefur her Nígeríu sagt að þeir séu einnig að gera sig klára ef þörf er á aðstoð.

Yahya Jammeh varð forseti í Gambíu árið 1994 í valdaráni, en Adama Barrow var svo óvænt kosinn forseti í desember. Jammeh reyndi að koma í veg fyrir að Barrow yrði settur í embætti og þurfti Barrow að sverja embættiseið í sendiráði Gambíu í höfuðborg Senegal.

Jammeh er enn í ráðhúsi Gambíu og samkvæmt frétt Guardian hefur hann reynt að ná samkomulagi um að halda áfram völdum. Hann lýsti meðal annars yfir neyðarástandi í landinu sem síðasta úrræði.

Barrow óskaði eftir stuðningi Afríkusambandsins og öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og staðfesti öryggisráðið fljótlega stuðning við Barrow.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert